föstudagur, 31. maí 2002

Nýstúdentinn

Við vorum að koma úr útskrift Andra brósa. Hann var að útskrifast frá MR af náttúrufræðibraut I og hlaut I. einkunn sem er glæsilegt.

Að venju var athöfnin löng og misskemmtileg. MR hefur þann sið að kalla til júbilenta svokallaða en það eru eldri stúdentar. Í þetta skiptið var fenginn 65 ára stúdent, 60 ára, 50 ára og að lokum 25 ára stúdent til að halda smá tölu. Þegar ég meina 65 ára stúdent á ég vitaskuld við að viðkomandi útskrifaðist frá MR fyrir 65 árum og ætti því að öllum líkindum að vera 85 ára. Athöfninni lauk síðan þegar rektor sleit skólanum í 156. sinn.

Við vorum sex úr fjölskyldunni sem mættum á athöfnina; ég og Baldur, mamma og pabbi; Alda frænka og Erna frænka. Þegar ég útskrifaðist fyrir 3 árum var reglan sú að maður mátti aðeins taka með sér tvo gesti en það er bara nóg til að taka með mömmur og pabba. Nú virðist þessu hins vegar hafa verið breytt því Andri hélt að hann mætti hafa allt upp að 5 gestum sem er ansi gott.

Við fáum síðan tækifæri til að hitta fleiri ættingja á eftir því sjálf stúdentsveislan hefst klukkan 17:30 í Grasagarði Reykjavíkur, a.k.a. Hortus Botanicus Reykjavicensis.

Til hamingju með daginn elsku brósi minn!

-----Myndauppfærsla 10. mars 2006-----

Að útskrifast

Tvö glæsimenni

Gómsætar veitingar

Fjölskyldumynd

Við systkin

þriðjudagur, 28. maí 2002

Sundferð

Í dag fórum við í sund. Þessi sundferð var frábrugðin öðrum sundferðum okkar að því leyti að í stað þess að láta klippa tvisvar af kortinu okkar og fá afhentar tvær skífur létum við afgreiðsludömuna hafa tvær passamyndir og 36000 kall og fengum í staðinn tvo bréfsnepla og tvær skífur.

Í stuttu máli þá festum við kaup á tveimur árskortum í sundlaugar Reykjavíkur. Jibbbbíííííí!!!!(28) Jahúúú!!!!(32) Þessa ákvörðun vorum við löngu búin að taka en áttum samt enn eftir slatta af klippikortinu okkar sem við notuðum nánast daglega. Blessuð sé minning þess.

mánudagur, 27. maí 2002

Hvað varð um okkur yfir helgina?

Seinast létum við víst í okkur heyra á fimmtudagseftiðmiðdaginn ef ég man rétt. Þennan sama eftirmiðdag fékk ég í hús seinustu einkunnirnar og síðan þá hefur ekki gefist nægilega rík ástæða til að þvælast hingað niður í Odda og kíkja á netið. Þar fyrir utan hefur dagskráin verið þéttskipuð.

Þennan áðurnefnda fimmtudagseftirmiðdag fékk ég, eins og áður sagði, seinustu einkunnir í hendurnar og niðurstöður vorannar 2002 eru eins og hér segir: Þjóðernishópar 9,0; Hagræn mannfræði 9,0 og Etnógrafía Eyjaálfu 9,5. Meðaleinkunnin var því um 9,2 og Baldur heimtaði að við héldum upp á það.

Til að verða við þeirri ósk fórum við á American Style og síðan í bíó að sjá mexíkönsku myndina Amores Perros. Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin árið 2001 og hlaut verðlaunin besta myndin á Cannes 2000. Ég las umfjöllunina um myndina á vef sambíóanna og varð meira en lítið hneyksluð því hver sá sem skrifaði þessa umfjöllun er greinilega ekki starfi sínu vaxinn. Hann er að lýsa í grófum dráttum söguþræðinum og fer með vitlaust mál, staðhæfir hitt og þetta sem er algjört bull. Þvílík vitleysa! Hvað sem öðru líður var myndin geggjuð.

Næst á dagskrá hjá okkur var að vinna í kosningunum. Við vorum í Kópavogsskóla og skiptum vöktunum þannig að við unnum tvo tíma og hinn sem vann með okkur á dyr vann tvo tíma. Í einni af þessum tveggja tíma pásum skruppum við í stúdentsveislunnar hennar Maríu frænku sem var að klára FG. Til hamingju elsku frænka! Þegar kjörfundi var lokið klukkan 22 fórum við yfir á Þingás og gláptum lítillega á kosningarsjónvarpið eða alveg þar til við fengum einhverjar tölur úr Kópavogi. Þá slökktum við og héldum heim á leið.

Nú virðist sem þessu mánaðarfríi mínu sé að ljúka því að öllum líkindum byrja ég að vinna á morgun eða hinn. Ég verð að vinna hjá prófessor uppí Háskóla, aðstoða við rannsóknir og hjálpa við undirbúning námskeiða. Ég hlakka sannast sagna mjög til að byrja og er komið með alveg nóg af því að vera í fríi og mega gera hvað sem mig lystir. Eftir viku eða svo á ég síðan eftir að líta á þessi orð mín og hugsa með mér: Nuts!

fimmtudagur, 23. maí 2002

Skráður

Já, já, já, jahá! Nú tilheyri ég aftur hinum stórmerkilega hópi sem kallast námsmenn. Í dag fór ég nefnilega og skráði mig í Háskóla Kasakstan og ætla að nema þar kynjafræði. Heyri ég lófatak og fagnaðaróp, er múgurinn ekki að ærast af gleði?

Nei ókei... Ég skráði mig í rafmagns- og tölvuverkfræði sem kennd er í Háskóla Íslands. Ég var samt að pæla í kynjafræði í Kasakstan, þar sem það er víst mjög arðbært og hagnýtt nám, en það var eitthvað sem varð til þess að ég valdi verkfræðina frekar.

Vorfögnuður í kirkjunni

Gærdagurinn bar sterkt svipbragð undanfarinna daga og leið við sundlaugarbusl, frisbíkast, ljósmyndasýningar og kirkjusöng. Eftir að hafa hent græna disknum á milli okkar í dágóða stund á túni einu niðrí Laugardal var farið í sjálfa laugina.

Þaðan komum við frísk uppúr og héldum rakleitt uppá Bókhlöðu þar sem Baldur tók fyrir smá stærðfræði og ég skrapp á netið. Að því loknu fannst okkur upplagt að kíkja á útskrifarsýningu nemenda úr ljósmyndaskóla Sissu á Laugarveginum. Myndirnar voru allar svart/hvítar en að öðru leyti áttu þær fátt sameiginlegt þar sem viðfangsefni ljósmyndaranna voru ólík. Margar myndanna voru áhugaverðar en aðrar voru ekki eins skemmtilegar.

Klukkan 19:30 vorum við síðan mætt niður í Hjallakirkju í vorfögnuð. Það hefur víst verið siður þar á bæ að starfsmenn kirkjunnar og þeir sem að starfi kirkjunnar hafa komið hittist eitt vorkvöld, snæði saman málsverð, syngji og tralli saman.

Á borð var borinn mexíkanskur matur frá TexMex sem leit vel út í fjarlægð, þ.e. fjarska fagur, en þegar á reyndi var hann bragðlaus og óspennandi. Eftir átið hófust síðan skemmtiatriðin sem stóðu undir nafni. Presturinn sagði brandara við góðar undirtektir okkar hinna, kórinn tók lagið og allir sungu síðan saman undir lokin. Sem sagt hin besta skemmtun og ágætisbyrjun á vorinu.

þriðjudagur, 21. maí 2002

Full endurgreiðsla

Málið með Landssímann fór betur en á horfðist: Við fengum munka miðana endurgreidda að fullu og það í seðlum. Þeir Landssímamenn eru kannski ekki eins miklir lúðar og manni fannst í fyrstu þegar blikur voru ekki svo skærar á lofti.

Við vorum búin að ákveða að lágmarkið væri að fá annan miðann endurgreiddan en þeir gerðu gott betur við okkur og það kom okkur á óvart. Í okkar augum var það sjálfsagt mál hver hafði réttinn sín megin og í þessu tilviki virðist Síminn hafa verið sammála og viljað gera vel við viðskiptavini sína. Slíkt er þó sorglega sjaldgæft og oftast þarf fólk að rífast og skammast til að standa á rétti sínum og fá sínu framgengt.

Af Kisu litlu Stjörnuprúðu

Eins og menn eflaust muna var farið með Kisu Stjörnuprúðu til læknis um daginn vegna meintrar vatnsdrykkju og tilheyrandi vatnslosunar í formi kattahlands. Greindist kisugrey með sykursýki og var því keypt sérstakt fæði fyrir ketti sem þjást af slíkri sýki. Fékk Kisa líka kisunammi fyrir hugrakka frammistöðu hjá lækninum góða, hún var sko allan daginn hjá vetta.

Nú nú, slíkt er í raun ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir baráttuanda Kisunnar okkar Stjörnuprúðu. Hún lætur ekki deigan síga, síður en svo, hún sigrar aðdráttarafl jarðar æ ofan í æ með því að hoppa tvist og bast, upp og út, til og ofar.

Hún er nefnilega í meðferð hjá okkur Bakkabræðrum Baldri og mér. Meðferðin lýsir sér í grófum dráttum svona: Útidyrnar, sem vísa að stórum og gróðursælum garði vorum, eru hafðar galopnar á góðviðrisdögum og er það liður í viðleitni okkar til að draga Kisu meira út.

Hún hefur brugðist hin sprækasta við og í blíðviðrinu sem leikið hefur við okkur Pókavogsbúa undanfarið hefur hún sólað sig í lautinni okkar góðu. Þetta hefur jafnvel gengið svo langt að hún er farin að læðupokast út á kvöldin þegar minnst varir og um daginn gerðist sá sjaldgæfi atburður (svo sjaldgæfur að slíkt hefur aldrei hent fyrr) að Kisa læstist úti, alein og óvarin.

Við vorum of upptekin við að rabba saman um heima og geima og gáfum krafsi hennar og klóri lítinn sem engan gaum. Allt í einu spratt ég þó á fætur til að aðgæta hvort einhver mórinn væri á ferð. Mórinn at arna var auðvitað litla ljúfan sem vildi komast inn. Og hér kemur að kjarnanum: Hún hafði óverdósað af fersku lofti, súrefni í nös, og var fim sem sirkusfíll. Hún iðaði af lífi, tók undir sig hvert stökkið á fætur öðru og lenti ávallt á báðum þófum, jafnþætis :) Slíkt og annað eins hefur hún aldrei gert sig seka um áður og var þetta gleðistund í litla kotinu.

Meðferðin virtist gefa góða raun og því var henni haldið áfram og Kisa tók þátt sem aldrei fyrr. Út að labba, borða gras, sniffa sólfífla, spóka sig, sólbað hér, hvæsa á ljótt fress þar, standa aftur upp og rápa, glápa. Hún gekk svo langt að hræða úr okkur líftóruna með því að fela sig í runnum og eitt sinn sá ég hana læðast upp stigann í átt að umferðargötunni. Ég útskýrði fyrir henni þýðum rómi að slíkt hæfði ekki hefðarketti sem henni og að forvitni væri löstur ef henni fylgdi lífshætta og magasár. Hún skildi mig og hélt áfram að vera blómabarn, halló blóm, halló fluva.

Ekki er öll sagan sögð, ó nei, því um daginn gerðust undur og stórmerki. Kisa, þessi kassavana frú sem auðvitað gerir þarfir sínar í þar til gert Kisuklósett inní þurrkherbergi, gerði sér lítið fyrir, tölti út í sandkassa og kastaði þar af sér vatni. Næst lét hún eftir "moka yfir" þráhyggju sinni og mokaði og mokaði yfir pissið þar til myndast hafði lítið fjall öðru megin og, óhjákvæmilega, dalur hinu megin.

Þessi tíðindi voru ósköp stór í augum Baldurs og ætlaði hann að hringja í fólk og vekja um miðjar nætur. Guði sé lof, þá tókst mér að koma í veg fyrir slíkt glapræði. Það tilkynnist því hér með að Kisa Stjörnuprúða hefur migið utanhúss og það í sandkassa takk fyrir.

Að lokum ber að minnast á leynivopnið í meðferð okkar á sykursýkinni: Ölger. Kisa litla er sólgin í þurrar gerflögur sem settar eru út á salat og í súpur og er þetta án efa eitt það besta sem hún lepur upp auk ólíva og skyrs (ég veit, hún er frábær). Nú nú, Baldur næringarráðgjafi komst að því að þetta áðurnefnda ölger jafnar út blóðsykurinn og því tókum við á það ráð að gefa kisu eina til tvær teskeiðar af geri með kvöldmatnum. Þessa dagana lifir Kisa því eins og blómi í eggi enda fær hún aðeins túnfisk, makríl og ölger. Kattamaturinn er sko búinn.

mánudagur, 20. maí 2002

Óvæntir endurfundir

Þegar við vorum að rannsaka Reykjavík með túristaaugum fórum við í gegnum Suðurgötukirkjugarð. Sem við erum að skoða legsteina og taka myndir af hinum ýmsu hlutum rek ég augun í kunnuglegt nafn og kalla til Ásdísar: Þetta nafn er í minni ætt! Hey, og þetta líka!

Við nánari athugun kom í ljós að þetta fólk, Guðfinnur og Marta, áttu afmæli 11. janúar og 12. ágúst. Það var ekki um að villast þetta voru mjög greinilega Guðfinnur afi og Marta amma. Ég vissi ekkert hvar þau væru grafin og því var þetta ákaflega skemmtileg tilviljun :)

Húsin í bænum 1

Við fórum á ljósmyndasýninguna í gær eins og talað var um og urðum yfir okkur hrifin. Sýningin var á vegum Fókuss, félags áhugamanna um ljósmyndun og var hún til húsa í Straumi í Straumsvík. Sýningin var ekki mjög stór, u.þ.b. 300 myndir, og vorum við tæpan klukkutíma að skoða okkur um. Það sem sumir þessara ljósmyndara eru færir! Og það sem margar þessara mynda voru fallegar!

Við bentum og hlógum í kapp við hvort annað eins og smákrakkar og skemmtum okkur konunglega. Ef maður ætti milljón væri ég til í að spanndera svona 100.000 krónum í sumar myndanna sem þarna voru til sýnis. Ég hvet alla eindregið til að fara, í dag er opið frá 13-21 en virka daga opnar ekki fyrr en kl. 17. Eitt enn: það er frítt inn.

Sýningin og labbitúr minn í gær blés okkur Baldri eldmóð í brjóst og létum við verða af einu því sem komið er á listann okkar yfir það sem við ætlum að gera í sumar. Við drifum okkur nefnilega í labbitúr um miðbæ Reykjavíkur og kölluðum við hann Húsin í bænum.

Við höfum jafnframt ákveðið að dreifa þessum Reykjavíkurtúrum á nokkra sunnudaga og taka fyrir ákveðin svæði í hverjum þeirra. Eitt aðalatriði þessara labbitúra okkar er að virða fyrir okkur gamla miðbæinn og þá sérstaklega húsin og garðana og upplifa stemmninguna. Myndavélin á auðvitað að vera með í för og markmiðið er að taka myndir af þeim húsum sem okkur finnast framúrskarandi að einhverju leyti. Í dag var sem sagt fyrsti hluti gönguseríunnar Húsin í bænum.

Við lögðum Nolla fyrir utan Aðalbyggingu Háskólans og röltum í átt að tjörninni. Á Tjarnargötu var strax margt húsa sem við vildum festa á filmu og hófumst við því ótrauð handa við að smella af. Túrinn tók síðan stefnu að Grjótaþorpinu sem mér finnst hreint út sagt dásamlegt. Mér finnst alveg eins og ég sé stödd í einni af barnabókum Astrid Lindgren og býst jafnvel við að sjá börnin í Ólátagarði koma hlaupandi á móti mér.

Þaðan gengum við um Bárugötu, Öldugötu og síðast en ekki síst, Ránargötu, en þar bjó ég í bernsku og sleit fyrstu barnsskónum. Ég man óljóst þá tíð, mér stendur ferskast í minni öll portin sem við krakkarnir lékum okkur í og þessi tilfinning að finnast maður vera í útlöndum þegar maður var staddur í einu þessara porta.

Eitt portið hafði til að mynda svaka flottan gosbrunn eins og maður sér í kvikmyndum sem eiga að gerast í borgum Ítalíu og ýtti það eflaust undir þessa exotic tilfinningu sem ég, barnið, fann fyrir í Ránargötu. Við Baldur gerðum heiðarlega tilraun til að finna þennan gosbrunn en eina portið sem við fundum var þakið spítnarusli. Ekki beint eins og mig minnti að þetta væri.

Frá Ránargötunni héldum við rúntinum áfram þangað til við komum að kaþólsku kirkjunni. Þangað hef ég aldrei stigið inn fæti enda ekki verið viss hvort ég, skírð til mótmælendatrúar, mætti slíkt og annað eins. Nú er öldin hins vegar önnur í mínum huga og við Baldur læddumst inn þöglum skrefum. Ekki voru margir á stjái, einn maður sat á bekk og virtist biðja og ein karmel nunna dittaði að kertunum. Við fórum einn hring um kirkjuna og virtum fyrir okkur málverkin og skoðuðum bæklingana sem lágu frammi. Að þessu loknu fórum við í almenningsgarðinn þarna rétt hjá og fengum okkur appelsínu og kex.

Endurnærð af nestinu héldum við göngutúrnum áfram, gengum nú um allar göturnar við Hringbraut og enduðum síðan á því að skoða Suðurgötukirkjugarð. Hann er alveg einstaklega yndislegur, allt er svo gróið og þar eru kyrrð og friður orð dagsins alla daga, alltaf. Ég hef aldrei vitað hve kirkjugarðar eru gott myndefni fyrr en nú. Ég stillti myndavélina á allskonar valkosti og reyndi jafnvel að taka mynd af köngulóarvef.

Við ákváðum síðan að enda túrinn á því að fá okkur malt og snikkers sem við og gerðum. Nú er stefnan hins vegar tekin á heimsókn til froskanna og jafnvel að renna aftur á ljósmyndasýninguna góðu í kvöld og reyna að draga pabba gamla með. Hann er jú áhugamaður um ljósmyndum ef einhver slíkur er til.

sunnudagur, 19. maí 2002

Húsin í bænum og Nauthólsvík

Þegar Baldur fór á fund í morgun ákvað ég að fljóta með niður í bæ í stað þess að sitja heima og lesa. Á meðan Baldur var á fundinum tók ég mér góðan labbitúr um miðbæinn og virti fyrir mér hús og híbýli Reykvíkinganna.

Ég hef í raun aldrei skoðað borgina á þennan hátt áður og upplifði mig hálfpartinn sem túrista í borginni. Það var frábær tilfinning og ég komst að því að ég kann miklu betur að meta borgina núna eftir þennan göngutúr. Við tjörnina hafði ég stuttan stans og virti fyrir mér stokkandaparið hér að neðan.

Í hádeginu fórum við Baldur síðan í Nauthólsvíkina að spila frisbí. Það var skemmtilegt að vanda en nokkuð hvasst og fátt um manninn. Við sáum um sex sólstóla uppá hól og Baldur sagði að um listaverk væri að ræða. Við stukkum upp á hólinn og prufuðum að sitja í þeim og mér fannst helst sem ég væri Gullbrá að prófa stólinn hans bangsapabba. Við sáum líka gamlar rústir frá stríðsárunum og tókum við myndir af herlegheitunum.

Eftir fornleifafræðirannóknirnar var farið í Laugardalinn og síðan upp í Þingás að kíkja á þá feðga. Þar hittum við fyrir Óla afa og Eygló frænku sem pabbi hafði boðið í grill. Núna erum við hins vegar að bræða með okkur að fara á ljósmyndasýningu í Straumsvík og hafa gaman af.



laugardagur, 18. maí 2002

5.000 blöðrur og bless fordómar

Niðri á Ingólfstorgi voru í dag tónleikar í tengslum við herferðina gegn fordómum. Allt byrjaði þetta stundvíslega klukkan 16 en við Baldur vorum mætt rétt fyrir 17 því þá átti að sleppa lausum 5.000 blöðrum. Þegar við komum aðvífandi var Ragga Gísla í sönggír en stuttu eftir það kom borgarstjórinn og klippti á borðann góða sem hélt saman blöðrubúntinu þannig að þær svifu til himins eins og litrík atóm. Mikil fagnaðarlæti brutust út enda margt um manninn í bænum.

Eftir blöðruatriðið röltum við um miðbæinn og virtum fyrir okkur mannlífið. Loksins eru laufin að springa út á trjám borgarinnar, ég er búin að bíða þessa í ansi langan tíma og finnst satt best að segja vorið vera seint á ferð. Nú virðist það hins vegar vera gengið í garð og held ég að veðurblíðan undanfarna daga staðfesti þá kenningu mína. Við settumst niður á bekk og tókum nokkrar myndir og röltum síðan að tjörninni og tókum enn fleiri myndir, í þetta skipti urðu þó fuglar myndefnið. Baldur er nefnilega ofsalega mikill fuglakall hef ég tekið eftir og hann má ekki sjá gæsir á vappi án þess að lýsa því fyrir mér hversu sniðug dýr honum finnast gæsir vera. Baldur er nú einu sinni alveg einstakur :)

Þegar tjörninni sleppti gengum við áfram í átt að háskólanum og komum við í bílnum til að ná í frisbíinn góða og græna. Í trjágöngunum frá Þjóðminjasafninu að Odda köstuðum við þeim græna á milli okkar, hjólreiðamönnum og hundaeigendum til mikillar skelfingar. Nú erum við hins vegar í Odda að netast, Baldur er að skoða verkfræðideildir og styrki og ég held ég leyfi mér að brávsa í friði. Á eftir er stefnan síðan tekin á sundlaug Laugardals og að því loknum held ég að við förum í göngutúr um Pókavoginn okkar. Góðar stundir.

föstudagur, 17. maí 2002

Lúða Landssími

Jæja, nú erum við komin í stríð við Landssímann. Eins og vaskir menn muna fórum við á munkasýninguna fyrir tæpri viku og komumst þá að því okkur til mikillar gremju að við höfðum ekki fengið þau sæti sem við pöntuðum. Í stað þess að vera fremst í stúkunni vorum við næst aftast og hefðum þurft á kíki að halda til að sjá hvað var að gerast á sviðinu.

Þetta voru mistök af hálfu Símans sem seldi okkur miðana og því fórum við í dag og sögðum farir okkar ekki sléttar. Lúðarnir þar tóku á það ráð að hringja í forstöðumann Listahátíðar Reykjavíkur og láta okkur tala við einhverja konu þar í símann. Sú sagði að þetta væri alfarið á ábyrgð Símans sem er auðvitað rétt og erum við helst undrandi á því að starfsmanni skyldi detta í hug að hringja í forstöðumann Listahátíðar með slíkt vandamál.

Í mínum augum er þetta einfalt: Síminn seldi okkur miðana og ber því alla ábyrgð á því að við skyldum fá vitlausa miða. Ef þeir geta ekki reynt að koma til móts við okkur og endurgreitt hluta verðsins verð ég hlessa, er þetta ekki fyrirtækið sem á múlti milljónir?
Jæja þá eru tónleikarnir búnir og gengu þeir alveg frábærlega vel. Það kom meira að segja gagnrýnandi frá Mogganum sem vonandi skemmti sér jafn vel og ég. Ég heyrði að vísu ekkert hvernig kórinn hljómaði en eftir viðbrögðum Jóns að dæma þá var allt eins og það átti að vera enda var klappað það mikið að við þurftum að taka þrjú aukalög. Ásdís, mamma og pabbi komu á tónleikana og voru á fremsta bekk og gátu því fylgst vel með öllu saman. Eftir tónleikana þá komu mamma og pabbi í te á Digranesveginn til okkar og var skrafað þar í smá stund en ekki lengi þar sem klukkan var orðin háttatími.

fimmtudagur, 16. maí 2002

Tónleikar

Nú er rétt tæpur klukkutími í að tónleikarnir hans Baldurs hefjist - allir að mæta. Þeir byrja á slaginu 20:30 í Hjallakirkju og kostar 1000 krónur inn eins og Baldur hefur áður greint frá.

Ég fæ reyndar frítt inn þar sem ég er maki og hef ég lúmskt gaman af því. Annað væri í raun mjög ósvífið því hverjir aðrir en makar þurfa að hlusta á gaul og aftur gaul í kórmaka daginn út og daginn inn?

miðvikudagur, 15. maí 2002

Ormar á gulli

Dagurinn í dag fór allur í að eltast við banka. Þannig er mál með vexti að ég á reikninga um hvippinn og hvappinn sem ég hef ekki fylgst neitt með í mörg ár. Sumir þessara reikninga eru frá því ég fermdist, aðrir frá því ég skírðist og síðan eru enn aðrir sem ég kann engin skil á.

Mér var nóg boðið og ákvað að loka öllum þessum reikningum og setja upphæðina inná eina bók. Dagurinn fór því í að eltast við hina ýmsu ólíku banka, bíða í biðröðum og auðvitað, að fá afhenta peninga.

Að loknu þessu drifum við okkur heim á leið og tæmdum úr öllum sparigrísum og peningakrukkum sem við mundum eftir. Eldhúsborðið varð að einni fjársjóðskistu og það er greinilegt að við höfum verið eins og ormar á gulli. Þegar allt hafði verið talið saman, þar á meðal peningurinn af þessum litlu reikningum hér og þar, stóðum við uppi með rúmar 40.000 krónur. Ekki slæmt dagskaup það.

þriðjudagur, 14. maí 2002

Ég vil koma því á framfæri að stóllinn sem Kisa vinnur við að skemma er kominn aftur á sinn stað, það er nefnilega svo voðalega notalegt að hafa svona stól til að hlamma sér í með góða bók. En að allt, allt öðru.

Við pabbi hlupum í dag þar sem sjúkraþjálfarinn sagði mér að prófa það, þetta var gríðarlega hressandi og góður hringur sem við fórum og ekkert meira viðeigandi en að liggja lengi í pottinum eftir átökin. Annars geri ég nú ekki mikið annað en að syngja þessa dagana sunnudagskvöld, mánudagskvöld og þriðjudagskvöld = kóræfingar og svo tónleikar á fimmtudagskvöld sem kostar 1000 kr inn á nema fyrir ellilífeyrisþega kostar 500 kr. Ég held að herlegheitin byrji klukkan 20:00 en ég fæ það staðfest núna á eftir.

Flatmagað í sólinni

Baldur fór út að skokka í morgun með pabba sínum og stakk sér síðan til sunds eftir átökin. Ekki var hann fyrr kominn heim en ég heimtaði að fara í sund líka og við það sat. Við fórum í Laugardalinn og flatmöguðum þar eins og rostungar í góðar tvær stundir. Eina sem pirraði mann voru krakkarnir í skólasundinu, af hverju smala kennararnir þeim alltaf í diskinn fyrir tímann, það voru allir að sleppa sér yfir látunum í gríslingunum.

Núna erum við hins vegar sloppin þaðan og erum í tölvuveri Odda að brávsa um netið. Við getum þó ekki leyft okkur mikið meira af því bili því við ætlum heima að elda linsubaunapottrétt með ofnbökuðum kartöflubátum og tómatsalati. Eldamennskunni og átinu á því þarf að vera lokið í seinasta lagi 19:00 því þá þarf Baldur að skunda á kóræfingu og ekki viljum við að hann sé eins og uppblásin blaðra þótt flestir hinna í kórnum séu það!

mánudagur, 13. maí 2002

Tiltekt með meiru

Við vorum svakalega dugleg í dag þar sem við drifum okkur í vorhreingerningar. Þetta voru engar venjulegar vorhreingerningar get ég sagt ykkur heldur var hér um að ræða vorhreingerningar í anda Ásdísar og Baldurs.

Við byrjuðum á því að taka niður hillurnar sem Baldur keypti sér á gelgjunni því þær tóku allt of mikið pláss í okkar alltof litlu íbúð. Eftir það ákváðum við að tími væri kominn til að viðra mublurnar okkar og því drifum við allt út, stóla, kommóður, skó, fatnað, kött, spegla, bækur, geisladiska, ALLT.

Sem betur fer höfum við stóran garð til umráðu því búslóðin, þótt smá í sniðum sé, dreifði úr sér eins og slitti á heitum sumardegi. Eftir það var allt ryksugað og rúminu var þvælt til og frá svo ekki ein einasta rykarða kæmist undan.

Næsta skref var síðan að taka hverja bókina fyrir sig og hrista hana rækilega. Við notuðum tækifærðið og settum bækur í poka sem við viljum ekki kannast við. Pokann sendum við síðan í Góða hirðinn. Bækurnar voru ekki einar um að fá að fjúka, heldur fuku skópör og fatnaður einnig ofan í poka sem síðan verða sendir í Rauða krossinn eða til Hjálpræðishersins.

Eftir þennan stormsveip var íbúðin allt önnur, bjartari og rýmri. Ekki er heldur verra að ljóti stólinn, þessi rifni og þvældi eftir Kisu, er horfinn. Megi hann RIP.

Eitt og annað: Föstudagur og laugardagur

Föstudeginum seinasta eyddum við að miklu leyti í lauginni enda afspyrnu gott veður. Við fórum síðan og sóttum Stellu uppá bókasafn því sumir höfðu verið að fá sér tíu dropa af einhverju öðru en kaffi og þurftu skutl heim. Við vorum í raun á hraðferð í föstudagspizzuna á Þingási en ílentumst hjá Stellu alveg til 22 um kvöldið því það var svo gaman að skrafa.

Við héldum þó seint en ekki svo hægt af stað í pizzuna og þar fundum við fyrir Öldu frænku frá Flórída og Sillu og Þórð, systkinabörn mín. Því miður, og ég undirstrika þessi orð, þá horfðum við á Djúpu laugina á Skjá einum sem allir vita að floppar feitt. Þessi þáttur var þó með afbrigðum sérkennilegur og við Alda frænka gátum varla horft á þáttakrílið fyrir skömm. Við höfðum þó lúmskt gaman af þessu og hlógum af þessari vitleysu sem vitleysingarnir létu út úr sér.

Laugardagurinn var einnig fjarska fagur. Við drifum okkur snemma af stað, þ.e. um hádegisbil, og fórum til pabba til að tæma skápinn minn áður en þeir gæjar flytja upp í Svínalind. Það styttist nefnilega óðum í að Grísalind verði húsum hæf og það sem skiptir enn meira máli er að fólkið sem ætlar að flytja inn á mitt æskuheimili ætlar að gera sig heimakært í byrjun júní.

Við vorum lengur að verkinu en á horfðist en létum það ekki aftra okkur í að fara í frisbí í garðinum eftir á. Pabbi og brósi slógust í hópinn og þetta var svo skemmtilegt að áður en við vissum af var klukkan orðin 15 og við þar með búin að missa af sundferðinni sem við ætluðum í áður en við færum að sjá Shaolin munkana.

Því drifum við okkur af stað upp á Digró og urðum að láta okkur nægja kvikk sturta. Síðan brunuðum við niður í Laugardalshöll og mundum eftir miðunum í þetta skiptið. Þá kom reyndar annað bögg uppá því við fengum ekki þau sæti sem við pöntuðum. Við tókum frá sæti fremst í stúkunni en viti menn, við enduðum í næst öftustu bekkjaröðinni.

Þetta eru mannleg mistök, aðilinn sem afgreiddi okkur virðist hafa ruglast eitthvað og því enduðum við lengst uppi í Laugardagshöll og ekkert of sátt við það hlutskipti. Sú fíla hvarf þó fljótt því sýningin var mjög skemmtileg. Ég var þó hrifnust af litla átta ára snáðanum sem var sem liðamótalaus.

Í byrjun sýningarinnar var tekið fram að atriðin á sýningunni mætti ekki gera heima hjá sér en fólk virðist ekki hafa tekið mikið mark á því ef eitthvað var að marka strákana sem við Baldur sáum á túninu fyrir ofan Höllina eftir sýningu. Þeir voru með prik í hendi og reyndu að herma eftir kung fu hreyfingum munkanna og stóðu sig hreint ekki svo illa.

564 jóladagur kveður

Uppstigningardag notuðum við til mjög praktískra hluta: við fórum yfir fjármálin. Við vorum ósköp dugleg, bjuggum til töflur í excel með lit og allt. Eftir miklar höfuðíbleytingar vorum við búin að telja upp öll atriði sem kosta okkur fjármuni og þá lá eyðsla mánaðarins fyrir okkur.

Taflan var ekki eins skemmtileg og við bjuggumst við og því tókum við á það ráð að eyða út ýmsum þáttum og lækka tölur hér og þar þangað til við töldum að ástandið væri orðið viðunandi. Eitt af því sem við eyddum af töflunni var heimilissíminn, 564 2512, og því tilkynnist það hér með að símanúmerið hefur verið lagt niður til frambúðar. Þetta þýðir reynda að við komumst ekki á netið heima en það skiptir í raun engu þar sem við nenntum aldrei á netið heima hvort eð var. Hver nennir að vinna með 56 kb nettengingu, mér er bara spurn?

Þennan sama dag, um kvöldið reyndar, fórum við í smá bíltúr um Suðurnesin. Við keyrðum m.a. að Kálfatjarnarkirkju og gengum um kirkjugarðinn. Kirkjan stendur nálægt sjó og því blés kaldan. Umhverfi kirkjunnar er mjög fallegt og það er eflaust frábært að vera þarna á sólríkum degi í logni og hita.

Frá kirkjunni keyrðum við til Voga á Vatnsleysuströnd. Bærinn er lítill og gróinn og fjarska notalegur. Það kom okkur á óvart hve mörg falleg hús voru á staðnum en mest um vert þótti okkur þó sú uppbygging sem virðist eiga sér stað á Vogum. Við keyrðum framhjá fjölmörgum húsum sem voru í byggingu og flest þeirra voru byggð úr forsteyptum einingum. Ætli þetta sé einhver tilraunastarfsemi, ég hef nefnilega aldrei séð þegar verið er að byggja hús úr forsteyptum plötum áður, hvað þá í svona miklum mæli?

Bærinn er vel þess virði að heimsækja og hefur núna bæst við á listann okkar yfir helgjarferðir um Ísland sumarið 2002.

föstudagur, 10. maí 2002

Eplasíder og Evrópa

Ekkert varð af hótun minni um að elda enn einu sinni egg og hrísgrjón í gær, við tróðum okkur nefnilega út annarsstaðar og það á kostnað annarra.

Klukkan fjögur hófst málþing um samrunaferlið í Evrópu og við mættum á svæðið. Þetta var ágætt framan af en undir lokin var maður orðinn ansi lúinn og þreyttur á allri þessari setu. Það sem hélt okkur þó á stólunum var loforðið um léttar veitingar í lok fundarins! Þessar meintu veitingar voru samlokur, hvítvín og eplasíder. Allt var þetta ljúffengt og hungrið léði veitingunum bragð sem kræfustu krydd eins og MSG gætu aldrei.

Eftir á gengum við út úr Aðalbyggingunni eins og fylltir kalkúnar og ekkert varð að eldamennsku það kvöldið. Í staðinn fórum við að bókasafnið niðri í bæ og tókum þar m.a. geisladiska með íslenskum hljómsveitum, svo sem Sálinni og Nýrri dönsk. Áform okkar eru að brenna þá og eiga þegar við komum til Köben til að geta tekið upp og spila þegar heimþráin sækir á.

miðvikudagur, 8. maí 2002

Elite

Í gær var ég á langri og skemmtilegri kóræfingu. Þessa dagana er nefnilega verið að fínísera tónleikaprógrammið sem flutt verður fimmtudaginn í næstu viku. En fram að því á ég víst eftir að spreyta mig á svolitlu alveg splunkunýju. Ég var nefnilega valinn til að syngja á tveim stöðum á morgun. Ég veit nú ekki hvað ég er að fara að syngja en ég er montinn af því að hafa verið settur í úrvalsdeildina :)

Ég held að þetta sé tvöfaldur kvartett sem ég syng í en það þýðir að það séu tveir úr hverri rödd. Ég er nú ekki farinn að kvíða þessu neitt enda orðinn miklu öruggari söngvari heldur en í haust þegar ég byrjaði.

Af kartöflum og öðrum kynjaverum

Seinustu helgi settumst við tvö niður við eldhúsborðið góða og skeggræddum mataræði okkar. Við sáum fram á að brýnt væri að auka fjölbreytnina í eldamennskunni og bæta við salati á hverjum degi til að fá daglegan skammt af steinefnum og vítamínum.

Undanfarið höfum við verið ósköp hugmyndasnauð hvað viðkemur matreiðslunni, við höfum komið heim úr vinnunni kúguppgefin og þá þurft að fara að velta fyrir okkur hvað skuli elda. Þetta er eflaust vandamál sem flestir þekkja. Okkar svar við þessu hefur yfirleitt verið að sjóða hrísgrjón og útbúa egg í brauð.

Slíkt fæði dugir þó ekki í öll mál og þegar hér var komið sögu fannst okkur nauðsynlegt að hætta að kvabba og kveina og segjast ekki kunna að elda og líta frekar í okkur kæru matreiðslubækur. Við eigum nefnilega margar flottar slíkar, eina með hrísgrjónaréttum, eina með pasta, eina með stir-fry uppskriftum og síðast en ekki síst þá eigum við þessa líka flottu grænmetisalfræðimatreiðslubók þar sem er að finna yfirlit yfir helsta grænmeti og ávexti sem hér á jörðu þrífast. Þar að auki er hún stútfull af ýmsum uppskriftum.

Sum sé, þetta tiltekna kvöld settumst við niður við eldhúsborðið góða og flettum í gegnum þessar blessuðu bækur. Merktum með gulum Post-it við þær sem okkur leist á. Hófust síðan handa við skipulagningu, elda þetta á mánudag, þetta hér á þriðjudag og síðan þetta, namm, á miðvikudag.

Á mánudag eldaði Baldur svaka fína sveppasúpu og ég gerði heiðarlega tilraun til að gera frambærilega blómkálsböku. Súpan var ljúffeng en það sama get ég ekki sagt um bökuna. Það þarf ekki að taka fram að Baldri fannst þetta allt lostæti.

Í gær var komið að tilraun tvö: Kartöflubollur. Eftir tveggja tíma eldamennsku með tilheyrandi subbuskap og óhreinum ílátum var maturinn kominn á borðið og vitið þið hvað? Mér fannst þetta ógeðslegt! En auðvitað var Baldur hæstánægður með matinn og kláraði allar bollurnar si svona! Er eitthvað hér í heimi sem Baldri finnst ekki gott að borða, mér er bara spurn?

Eftir allskyns hrakfarir í eldamennskunni undanfarna daga held ég að ég gefist upp í bili og eldi bara a la Digranesvegur í kvöld: Egg í brauði með hrísgrjónum og chilli sósu.

þriðjudagur, 7. maí 2002

Farinn vegur

Þá erum við loksins komin aftur, hin fræknu Balli Bumba og Dísa Djásn. Við tókum okkur nebblega nokkkurra daga frí ef þið tókuð ekki eftir því. Fríið fólst meðal annars í því að forðast hluti eins og heimilistölvuna enda var maður kominn með nóg af tölvuglápi. En þrátt fyrir að við tókum okkur frí var margt að gerast. Við ætlum því að reifa helstu atburði hér.

Laugardagurinn 27. apríl
Þennan dag tók ég seinasta prófið mitt og gekk bara alveg ágætlega. Eftir að ég hafði talið í mig dug til að ljúka prófinu og skila því af mér hentist ég út í vorið og þar, í vorinu, beið Baldur mín með smá próflokagjöf. Gjöfin var hvorki meira né minna en Heimsbyggðin, saga mannsins frá upphafi til dagsins í dag eins og stendur réttilega á kápunni. Þetta finnst mér alveg frábær gjöf því ég hef einmitt verið að kvarta undan því hve lítinn grunn ég hef í mannkynssögunni. Nú dugir ekki að kvarta meira, hér dugir aðeins lesturinn.

Til að halda enn fremur uppá þessi merku tímamót héldum við útí Bónus þar sem við keyptum nesti. Síðan héldum við út í óvissuna með kókómjólk og kex í farteskinu. Fyrst áðum við í Verahvergi þar sem við böðuðum okkur í sundlaug heimamanna. Þaðan var síðan haldið beint yfir í Eden því við Baldur kaupum okkur oftast franskar þar þegar við eigum leið um dalinn. Ekki það að franskarnar séu eitthvað afspyrnu góðar þar á bæ, heldur snýst þetta um prinsíp, maður verður að hafa ákveðna siði og sérvisku. Við ákváðum að sukka allverulega og keypum því líka Fanta. Úff, ekki má gleyma lottóinu sem við keyptum fyrir fúlgufjár. Þrátt fyrir að Baldur hafi beðið um vinningsmiða var þar engan vinning að fá. Svekkelsið.

Sunnudagurinn 28. apríl
Við vöknuðum tiltölulega snemma enda þurfti Baldur að syngja í messu. Ég hófst hins vegar handa við að baka fyrir afmæliskaffiboðið seinna um daginn. Mér tókst að baka djöflatertu, kanilköku og muffur áður en gestina bar að garði en varð að hnoða deigið í brauðbollur og steikja pönnsur í þeirra viðurvist. Kaffiboðið heppnaðist stórvel og þrátt fyrir að þröngt hafi verið á þingi rúmaði stofan okkur öll vel. Kisa greyið flúði inní herbergið sitt enda óvön slíkri mannmergð.

Mánudagurinn 29. apríl
Þessi dagur verður lengi í minnum hafður sem dagurinn þegar flétta tvö bættist í safnið. Svo er mál með vexti að strax í æsku var ég með sítt hár. Á tíunda aldursári var mér nóg boðið og dreif mig í langþráða klippingu. Hárið var fléttað og síðan klippt beint af hausnum mínum. Sú flétta er núna í fórum pabba. Þenna mánudag virðist ég hafa upplifað sömu örvæntinguna og ég upplifið 12 árum áður því ég dreif mig á næstu klippistofu og lét klippa af mér haddinn. Þar endurtók sagan sig, hárið var fléttað og síðan bara klippt af. Eftir á leið mér eins og ég hefði gorkúlu í stað höfuðs, mjög sérkennileg tilfinning. Það sem er ólíkt með þessum tveimur klippingum er þó að núna er ég ólíkt stuttklipptari og í fyrstu fannst mér ég óttarlega strákaleg. Baldur varð hins vegar yfir sig hrifinn og sagði að svona ætti ég alltaf að vera. Ég neita því ekki að svona stutt hár er ósköp þægilegt að hafa, engin fyrirhöfn what so ever.

Létt á fæti fór ég á bókasafnið og tók allar bækurnar um stúlkuna á bláa hjólinu. Ástæðan fyrir því er þessi: Ég var svo vitlaus að kaupa bókina Heitt streymir blóð á bókaútsölu á dögunum. Þegar ég kom heim og ætlaði að hefja lesturinn komst ég að því mér til hrellingar að bókin er sjötta bindi bókaflokksins um stúlkuna á bláa hjólinu. Ég hafði óljósa minningu af fyrstu bókinni þar sem ég hafði séð hana á náttborð mömmu þegar ég var písl. Mér fannst hún alltaf óttarlega óspennandi og eflaust hef ég svarið að lesa þetta aldrei sjálf þegar ég yrði fullorðin, enda eitt markmiða krakka að verða alls ekki svona leiðinlegur fullorðinn sem horfir á fréttir og talar um pólitík, oj. Það hef ég víst allt svikið. Bækurnar reyndust hins vegar áhugaverðar fyrir það eitt að fjalla um frönsku andpyrnuhreyfinguna í seinni heimsstyrjöldinni.

Um kvöldið heimsóttum við síðan mammsý sem einnig varð hrifin af nýja lookinu. Ég reyndi að plata og segjast vera með hárkollu, án árangurs þó.

Þriðjudagurinn 30. apríl
Það er eins og mig minnir að ég hafi legið yfir lestri góðra bóka allan þenna dag. Um kvöldið elduðum við Balli pottrétt úr linsubaunum og buðum mömmu í mat því við ætluðum í bíó klukkan átta. Eftir mat lá leið Balla á kóræfingu en við mamma nýttum okkur þriðjudagstilboð bíóhúsanna og fórum að sjá You Can Count On Me. Æ, ég veit ekki, ég mæli ekki með henni satt best að segja. Sumar myndir vinna á, maður er efins eftir að maður kemur úr bíó en því meir sem maður pælir því hrifnari verður maður. Þessi mynd tók öfuga stefnu í huga mér, því meir sem ég pæli því lélegir finnst mér hún. Aldrei að ljúka mynd með of mörgum opnum endum, áhorfendur eins og ég gúddera það ekki.

Miðvikudagurinn 1. maí
Við byrjuðum daginn á því að fara í Árbæjarlaug sem virtist vera eina opna laugina á stórhöfðuborgarsvæðinu. Kópavogslaug var auðvitað ekki opin, en slíkt þarf ekki að taka fram. Laugin var krökk af fólki, aðallega smáfólki og halda mátti að um krakkanýlendu væri að ræða. Okkur tókst ekki að slappa eins vel af og við bjuggumst við enda voru litlir gríslingar út um allt að henda sér í pottana úr öllum áttum og ekki möguleiki að vita hvaðan þeir kæmu eða hvenær. Eftir vægt taugaáfall hentumst við uppúr og inní bíl og ákváðum að fara í bíltúr. Stefnan var fyrst tekin á næstu ísbúð og þaðan ætluðum við síðan uppá Þingvelli. Á miðri leið rak ég þó augun í skilti sem vísaði leiðina upp að Hlaðgerðarkoti, gamla heimavistaskólanum hennar mömmu. Ég varð auðvitað óð og uppvæg og vildi sjá þessa byggingu sem ég hafði svo oft heyrt talað um. Okkur varð þó ekki kápan úr því klæðinu, eitthvað villtumst við og vorum því fegnust þegar við sjáum malbikið á nýjan leik. Í stað þess að halda við fyrra plan beygðum við til vinstri og héldum í átt til borgarinnar. Við keyrðum um nýja Grafarholtshverfið og það kom okkur á óvart hve mikið hefur verið byggt nú þegar.

Fimmtudagurinn 2. maí
Í tilefni af 22 ára brúðkaupsafmæli Ólafar og Jóa var okkur ásamt Froskunum boðið í mat, saltfisk með kartöflum og ólívum. Ég plokkaði ólívurnar burt og gaf Stellu þær. Allt annað borðaði ég með bestu lyst enda einn besti fiskréttur sem ég hef fengið. Við horfðum líka á einn Matador þátt sem mér þótti ósköp ómerkilegur og leiðinlegur en reyndi eftir fremsta megni að halda athyglinni með það fyrir augum að læra smá dönsku áður en við flytjum út.

Föstudagurinn 3. maí
Sem liður í að borða meira af baunum gerðum við heiðarlega tilraun til að búa til linsubaunabollur. Þær voru ekki góðar. Ég hef hins vegar smakkað einhverjar bollur úr baunum sem voru virkilega góðar og nú er bara að leggja höfuðið í bleyti og detta eitthvað sniðugt í hug.

Um kvöldið fórum við yfir á Þingás. Pabbi var á árshátíð og Andri hjá Gyðu þannig að við höfðum allt húsið fyrir okkur sjálf. Mest um vert þótti okkur þó að hafa vídeótækið og sjónvarpið fyrir okkur sjálf því við ætluðum að glápa á Manhattan Murder Mysteri eins og við hétum um daginn. Myndin er alveg frábær og ég lá ekki síður í krampa núna en ég gerði fyrst er ég sá hana.

Laugardagurinn 4. maí
Baldur söng á tónleikum með Stjörnukórnum hennar Tótu, þetta voru svona maraþon tónleikar þar sem sungið var frá morgni fram á kvöld. Um kvöldið var síðan hin hefðbundna föstudagspizza nema hvað hún var einum degi of seint á ferð.

Sunnudagurinn 5. maí
Rok og rigning lýsir þessum degi ansi vel. Við hættum okkur þó í Laugardagslaug og héldum okkur í bubblpottinum allan tímann. Eftir það höfðum við stuttan stans við pollinn í Reykjavík þar sem allir fuglarnir þinga og hentum í þeim nokkrum brauðsneiðum. Eftir slíkt góðverk fannst okkur við eiga skilið að fara að sjá Woody Allen myndina sem núna á að fara að sýna í bíó, The Curse of the Jade Scorpion. Við vorum bæði mjög hrifin og hlógum dálaglega.

Mánudagurinn 6. maí
Við tókum okkur göngutúr í gær um Kópavoginn. Við gengum meðfram stöndinni og kíktum í heimsókn til Ólafar og Jóa. Síðan skokkuðum við létt á tá heim á leið enda með sojadesert í mallanum, namm. Heima beið okkar síðan verðugt verkefni, að horfa á Casablanca. Ég hafði aldrei séð myndina og fannst því tími til kominn að sjá um hvað allt þetta fuzz snérist. Myndin var ágæt en ég var samt ekkert of hrifin. Skemmtilegast var þegar maður heyrði línur sem maður hafði heyrt í hinum og þessum þáttum. Ég held ég hafi samt hlegið mest af þýsku hjónunum sem voru að æfa sig í ensku: What watch? Ten watch. Such much?