sunnudagur, 27. apríl 2003

Afmæli

Í gær var haldið afmæliskaffi heima og var mikill viðbúnaður lögreglu af því tilefni og kallast dagurinn víst lögregludagurinn. Það kom þó ekki til óeirða og fór veislan öll fram á hinn virðulegasta máta og ber húsfreyjan allan heiður af því.

Eins og allir vita fylgir hverju afmæli aukinn aldur afmælisbarns og ég hef meira að segja heyrt að sumir fái þroska í kaupbæti. Það er sosum gott og blessað en mér líst nú ekki á blikuna þegar fólk er farið að stinga upp á ruggustól sem næstu afmælisgjöf. Eru það skilaboð um aukinn þroska eða hvað? Ég veit ekki, það er erfitt að segja... En dagurinn í gær var frábær, takk fyrir mig!

fimmtudagur, 24. apríl 2003

Gleðilegt sumar!

Ég (ef mig skyldi kalla) vil fylgja eftir svokallaðri fyrirsögn og óska öllum um heima og geima gleðilegs sumars og þakka fyrir veturinn (ef vetur skyldi kalla). Ég ákvað að eyða þessum fyrsta degi sumars í vinnunni og nýta tímann í lærdóm. Það er þó eins og oft áður erfitt að gera tvennt í einu og lærdómur víkur fyrir vinnu og almennu amstri.

mánudagur, 14. apríl 2003

Stutt yfirlit

Núna er ég í tíma en ákvað að skreppa aðeins til að kíkja á póstinn og svoleiðis.

Á laugardaginn var ég að vinna, í gær skutlaði ég mömmu upp á flugvöll og söng svo í tveimur fermingum, í dag er ég búinn. Fyrir utan það sem ég hefi talið upp nú þegar þá reyni ég að læra við öll tækifæri. Jæja þá er það komið, ég er farinn aftur í tíma.

miðvikudagur, 9. apríl 2003

Mættarmót

Í dag fór ég í bíltúr með Pétri afa. Við keyrðum sem leið lá út á Keflavíkurflugvöll, svona eins og maður gerir, og náðum í mömmu. Mikið ferlega var gaman að hitta mömmu, nú þarf maður bara líka að fá pabbaskammtinn sinn. Við fórum svo og heimsóttum Stellu ömmu og vorum hjá henni dágóða stund.

Svo úr því að allir voru í svona góðum fíling þá ákvað afi að slá upp mini-ættarmóti (mættarmóti) á á á Á næstu grösum og svoleiðis ættarmót getur ekki orðið annað en ljúffengt.

þriðjudagur, 8. apríl 2003

Skammturinn kominn

Eftir rúmlega hálftíma tímasóun á þessum stað þá er ég kominn með endorfínbyrgðir fyrir krúttulega dæmið sem bíður mín í ofvæni.

Endorfínfráhvörf

Nú verð ég að gera eitthvað annað en að reikna í smá stund. Ekki það að ég hafi reiknað svona mikið, þvert á móti reyndar. Málið er að dæmin sem ég ákvað að glíma við í dag eru í þyngri kantinum og ganga fremur hægt fyrir sig. Það þýðir einfaldlega að endorfínfíkillinn í mér fær færri verðlaun en ella.

Þegar ég tala um verðlaun þá á ég við losun endorfíns út í líkamann sem gefur manni þessa sælutilfinningu sem fylgir því að sigra stærðfræðiþrautir og reyndar líka líkamlegri áreynslu. Á eðlilegu mannamáli þá var ég barastabara orðinn svo pirraður á ákveðnu dæmi að ég ákvað að gera bara eitthvað allt annað í smá stund.

laugardagur, 5. apríl 2003

Veðurfréttir á bókasafninu

Í gær þegar við komum heim úr föstudagspizzu, sundi og rabbi tókum við eftir því hve kalt það var í íbúðinni. Við komumst fljótt að því að allir ofnarnir í íbúðinni voru ískaldir sem veitti ekki á gott því framundan var vetrarnótt.

Jæja, klukkan var reyndar langt gengin í tvö þessa nóttina en við létum okkur samt hafa það að tappa af nokkrum ofnum. Við vorum dauðþreytt og mér var orðið ansi kalt svo vonbrigðin voru ekki lítil þegar ofnarnir héldu sínu striki og kældu íbúðina.

Við brutum heilann nokkra stund og veltum fyrir okkur hvernig stæði á því að loft kæmi af ofnunum en samt hitnuðu þeir ekkert eftir aðgerðirnar. Við fengum síðan ljósaperu (!) og tékkuðum á heitavatninu. Það var við manninn mælt, ekki deigur dropi sem kom þegar skrúfað var frá krananum.

Við ypptum þá öxlum, skriðum upp í rúm og bættum á okkur flísteppi til vonar og vara. Undir morgun rumskuðum við síðan við læti í pípunum sem var kærkomin vísbending um að heita vatnið væri á leiðinni. Þetta var samt sko allt í lagi að gista svona í óupphitaðri íbúð eina nótt, sko.

Að lokum, er það bara ég eða finnst öðrum súrrealískt að heyra tilkynnt í kallkerfi Bókhlöðunnar að nú sé korter til lokunnar og fá jafnframt beint í æð nýjustu veðurspána? Ég held að starfsmenn safnsins séu að flippa því lesin var upp veðurspá sunnudagsins og síðan rétt í þessu var tilkynnt að samkvæmt veðurspánni sem var lesin upp hér áðan væri okkur óhætt að fara út í veðrið! Ég sé ekki betur en það sé sól og blíða, ja allavega enginn stormur. Hvað er eiginlega í gangi?

föstudagur, 4. apríl 2003

Ert'að grínast?

Stundum held ég að grínfréttavefir á borð við baggalút séu óþarfir því svo virðist vera að raunveruleikinn sé oft á tíðum mun klikkaðri og hafi ríkara hugmyndaflug til að skapa furðufréttir. Eða hvað finnst ykkur um að stinga af með son og átta ljón sirkusstjóra?

Tæplega fimmtug kona, sem starfað hefur sem ljónatemjari hjá svissneska farandsirkusnum Hinum fljúgandi sveppum, hefur hlaupist á brott með tvítugum syni sirkusstjórans, átta ljónum og tveimur tígrisdýrum. Konan var að þjálfa sirkusstjórasoninn í þeirri list að temja villidýr. Talsmaður þýska bæjarins Melle, þar sem sirkusinn var við sýningar, segir að þau tvö hafi orðið nánir vinir og ákveðið að hlaupast á brott.

Sirkusinn býður þeim, sem endurheimtir dýrin, jafnvirði nærri 13 milljóna króna í fundarlaun.


Nú þegar stúdentar sjá fram á frekar óspennandi sumarstörf sökum skorts á störfum væri ekki vitlaust að íhuga sumarstarf hjá Hinum fljúgandi sveppum. Ég hef heyrt að þar sé verið að leita að ljónatemjara og tíu vitleysingum sem tilbúnir eru að leika ljón eða tígrisdýr.

fimmtudagur, 3. apríl 2003

Fiðraður gestur

Þessa stórskemmtilegu frétt fann ég á netsíðu Moggans:

Það kemur fyrir að furðufuglar reki inn nefið á lögregluvarðstöðum landsmanna. Þeim, jafnt og öðrum gestum, er vel tekið og veitt úrlausn í samræmi við erindi sín. Um kvöldmatarleytið í gær lagði páfagaukur, á ferð um Ólafsvík, leið sína inn á lögregluvarðstofuna. Lögreglumönnum fannst hann vera illa til reika og nokkuð kaldur. Var honum því boðin vist á öxlum þeirra á meðan hann safnaði kröftum og fékk yl í kroppinn. Þegar komið var fram yfir útivistartíma hafði ung stúlka samband við lögreglu og kvaðst sakna páfagauks. Stúlkunni létti að vonum þegar hún frétti að páfagaukurinn væri í höndum lögreglu.

Þegar gengið var til náða í Ólafsvík í gær var páfagaukurinn því kominn í öruggt skjól hjá ungu stúlkunni.

þriðjudagur, 1. apríl 2003

Að hlaupa apríl

Í dag er 1. apríl og því alþjóðlegur plat- og gabbdagur. Sjálfri hefur mér bara einu sinni tekist að plata einhvern og það allverulega. Það var þegar ég var svona 6-7 ára og bjó í Miðtúni. Pabbi lá í makindum upp í sófa að glápa á fréttir þegar ég kem inn í stofu og segi að það sé einhver maður úti sem vilji hafa tal af honum. Hann neyddist því til að standa á fætur og fara fram á gang en viti menn, þar var ekki hræða. Ég man mér fannst þetta það allra fyndnasta og skemmilegasta og mér finnst það eiginlega ennþá því pabbi man svo vel eftir þessu prakkarastriki. Haha :)

Ég fann smá fróðleik um þennan merkadag á netinu, á vísindavefnum. Þar segir:

Fyrsti apríl er haldinn ?hátíðlegur“ um allan heim með tilheyrandi glettum og hrekkjum. Upprunann má að öllum líkindum rekja til miðalda en þá tíðkaðist í Evrópu að halda upp á nýtt ár á vorjafndægri 25. mars. Fyrsti apríl var áttundi og síðasti dagurinn í nýárshátíðinni, en samkvæmt fornri hefð Rómverja og Gyðinga skyldu merkilegar hátíðir standa í átta daga. Karl mikli (Karlamagnús) innleiddi þennan nýárssið á 8. öld en Gregoríus páfi 13. færði nýárið aftur til 1. janúar seint á 16. öld. Víða hélst þó áfram hefð miðalda, til dæmis var haldið upp á nýtt ár um vorjafndægur á Englandi allt til ársins 1752.

Ærsl voru mikil þennan dag á miðöldum og fólk vildi halda í þau þótt ekki væri lengur um nýárshátíð að ræða. Öllu kristilegri bragur var kominn á 1. janúar sem áttunda dag jóla og því tilvalið að halda áfram gleðinni fyrsta apríl. Hér á landi staðfesta heimildir að gabbleikir hafi farið fram þennan dag á síðari hluta 19. aldar en Íslendingar þekktu siðinn áður og skrifuðu gabbbréf, svokölluð „aprílbréf“ á 17. öld. Ekki ómerkari menn en Árni Magnússon geta þessarar venju og Jón Þorláksson á Bægisá samdi gamankvæði, „Fyrsti aprílis“, þar sem beinlínis er talað um að hlaupa apríl.

Fjölmiðlar hafa lengi tekið að sér að gabba almenning fyrsta apríl. Lundúnablaðið Evening Standard plataði lesendur sína á mikla asnasýningu árið 1846, ljóst er hverjir voru hafðir til sýnis þar. Fyrsta aprílgabbið sem vitað er um í íslenskum fjölmiðli, er frá árinu 1957. Þá létu fréttamenn Ríkisútvarpsins sem að fljótaskip sigldi á Ölfusá á leið til Selfoss og sögðu frá í beinni útsendingu. Nú til dags er samkeppni meðal íslenskra fjölmiðla um hver á besta aprílgabbið, þekktar eru til dæmis fréttir um miklar verðlækkanir á ýmsum vörum, kjöti, bílum eða tölvum, sem ekki hafa átt sér neina stoð í raunveruleikanum. Best er því að hafa varann á í dag (1. apríl 2003) og taka ekki allt trúanlegt!