þriðjudagur, 24. júlí 2012

Á toppinn

Ég lét verð að því! Ég fór á toppinn! Og ég sem var harðákveðin í að gera það ekki, haha!

Á sunnudaginn síðasta kýldum við loksins á dæmið. Höfðum legið yfir veðurspánni og sáum að það var spáð þurru frá hádegi til kvölds. Við fengum Olle og Kim til liðs við okkur og eftir að hafa pakkað niður nesti og myndavél vorum við reddí í fjallgöngu.

Leiðin að fjallinu er sú sama og við fórum í fyrsta legg hringferðarinnar, þ.e. í gegnum þorpið. Hittum nokkra á leiðinni sem stóðu í garðverkum eða voru í sunnudagsgöngutúr og allir hvöttu okkur áfram til dáða. Við vorum því skælbrosandi gangandi þarna í mosanum með sólina í augun.

Við lentum snemma í mikilli leðju eftir rigningar daganna á undan og hér fékk ég ágætan samanburð á því að ganga sömu leiðina á þurru eða blautu. Votir og mosavaxnir steinar eru ekki vinir fjallgöngugarpa, skrifa það og hrópa. Þetta var þó hvergi nándar nærri því eins mikið klöngur og skakklapp eins og á hringferðinni, til þess þyrfti ansi mikið að ganga á.

Eftir klukkutíma göngu að fjallinu vorum við loks komin að leiðinni sem liggur upp. Erfiðasti hluti fjallgöngunnar er strax í byrjun því hallinn er mjög mikill og aðallega gengið í grjóti og klöppum. Kim ákvað snemma að snúa við en við hin héldum ótrauð áfram. Fjallið er bara 625 m á hæð og ég hafði talið mér trú um að það yrði lítið mál að klífa upp, hafandi farið upp Esjuna og svona. Esjan er kid stuff við hliðina á Lovundfjalli!

Við tókum margar pásur á leiðinni til að njóta útsýnisins. Við sáum tvo erni á flugi og þeir slógust aðeins, kannski til að sýnast fyrir okkur. Þegar við nálguðumst toppinn sáum við þokuhattinn sem toppurinn er iðulega með á sér koma fljótandi yfir okkur. Áður en við vissum vorum við umvafin þokunni sem huldi útsýnið sem er svo rómað. Mér fannst það samt ekkert miður, það var mjög sérstakt að upplifa sig á toppnum í þoku. Einhver dulræn upplifun. Og mitt í dulrænu upplifuninni heyrðist jarmað hinu megin við þokuna. Fjárhjörð á beit á toppnum.

Við kvittuðum fyrir okkur í gestabókina, fengum okkur smá nesti og drifum okkur svo niður því við vorum orðin köld í gegn af að sitja í kaldri þokunni. Ferðin niður sóttist svo vel að við rétt náðum að sjá maríuhænu og bláklukkur. Það er reyndar ekki alveg satt, ferðin sóttist svaka vel framan að en svo fóru blómin að stinga upp kollinum og þá varð þetta meira svona að Baldur og Olle voru saman í fjallgöngu á meðan ég var stanslaust að reyna að ná í skottið á þeim með myndavélina í eftirdragi.

Við komum heim og náðum beint í matarboð hjá Önju og Mads. Gátum reyndar sturtað okkur fyrst svo við værum aðeins frambærilegri. Þau gerast varla betri endalokin á fjallgöngu en að vera boðið í góðan kvöldmat.

 Hér að neðan eru síðan nokkrar vel valdar myndir úr göngunni en allar myndirnar má nálgast í albúminu Á Lovundfjall á flickr.

Á leið á toppinn

Untitled

Á leiðinni upp

Untitled

Örn á flugi

Untitled

Skuggaverur í þokunni


Gestabókin

Tada!

Untitled

Hangið í keðjunni

Maríuhæna

Untitled

Untitled

Engin ummæli: