miðvikudagur, 4. júlí 2012

Gengið á Nøvva














Í gær gengum við Baldur á litla tindinn Nøvva, sem er svona systrarfjall Lovundfjallsins. Baldur var búinn að fara þrisvar upp með vinnufélaga sínum Kim og vísaði því leiðina.

Dagurinn var heiðskýr og svalur og því kjörinn í smá göngu uppí mót. Auðvitað fórum við þar sem brattast er, Baldur verandi leiðsögumaðurinn. Fyrir vikið fórum við hratt upp og áður en ég vissi af sá ég yfir litla þorpið sem er búið að vera heimili mitt síðustu tíu mánuðu.

Við mér blasti skólinn og búðin okkar, kirkjan og Nova Sea og auðvitað öll húsin í sínum ólíku stílum og litum. Það var ekki laust við að það væri gott að komast aðeins yfir sjávarmál og fá almennilega yfirsýn. Svo naut sjóndeildarhringurinn sín einstaklega vel úr þessari hæð.

Þetta var í sjálfu sér ekki mikil ganga, tók fljótt af og eftir að við höfðum kvittað fyrir okkur í gestabókina sem er í lokuðu krukkunni falinni undir berjalyngi, fundum við okkur vindhelda laut og kúrðum aðeins í sólinni.

Á bakaleiðinni hafði kólnað verulega og því var hugmyndinni að haska sér heim. En ég fórnaði mér fyrir listina, ég sá svo mörg blóm og strá sem varð að mynda. Ég kom krókloppin heim en á líka böns af æðislegum myndum sem koma á hnotskurnina von bráðar.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Fallegt... bratt og býsna hátt!

ásdís maría sagði...

Já, absolute vakkert og einmitt býsna hátt og bratt.