mánudagur, 16. júlí 2012

Rundt øya, 1. del

Á sunnudaginn fyrir viku fórum við Baldur í svolítið ferðalag: við gengum hringinn í kringum eyjuna! Við höfðum áður náð að fara út á Risnesset sem er syðsti punktur eyjunnar og útí Hestvika sem er á norðvesturhluta eyjunnar en allur suður- og vesturhluti eyjunnar var enn ókannað land.

Við vorum búin að heyra marga tala um að erfitt væri að fara hringinn og Olle vinur okkar mælti nú ekkert sérsaklega með ferðinni. Aðrir höfðu talað um að leiðin væri varhugaverð, það væru engir stígar hinum megin á eyjunni og að það væri mikið um klifur og stökk yfir djúpar sprungur, klofað yfir háa steina og haldið dauðahaldi í þverhnípt berg. Og allt þetta reyndist vera alveg satt. En að fara hringinn um eyjuna er eitt af nýársheitunum mínum og slíkt verður að virða. Því lögðum við af stað í hringferð.

Klofað

Við höfðum fengið leiðbeiningar frá Olle um að best væri að fara hringinn á fjöru þar eð aðgengið væri auðveldara og maður gæti þannig sloppið við að fara of marga króka fyrir keldu. Við skoðuðum því flóðatöflur fyrir Lovund og ákváðum að best fyrir okkur væri að leggja upp í ferðina klukkan átta að kvöldi. Ævintýrablær yfir þess ekki satt? Við sáum fram á kannski 4-5 tíma göngu fram yfir miðnætti og svo yrði sofið vært því á mánudeginum væri hvort eð er kvöldvakt. Ekkert stress.

Baldur & Fríkirkjan

Við nöppuðum hitabrúsa frá Svíunum og fylltum hann með heitu piparmyntutei, stungum inn á okkur sitthvoru jarðarberja/hnetuprótínbarinu, pökkuðum niður aukayfirhöfnum og klæddum okkur svo í útivistafatnaðinn, reimuðum á okkur gönguskónna og læstum á eftir okkur.

Leiðin á toppinn

Fyrsti hluti leiðarinnar var eins og maður segir piece of cake. Hér fyrir norðan er bjart allan sólarhringinn, mun bjartar en fyrir sunnan í Reykjavík. Við ákváðum að fara austurleiðina til að enda ferðina á vesturhluta eyjunnar með sólina og litadýrð miðnætur í augun.

Untitled

Við byrjuðu á því að ganga þvert í gegnum litla þorpið, fórum áður ógengna slóða og short cuts, upp hjá Fríkirkjunni og framhjá húsi vinkonu okkar henni Flordelis. Upp götuna framhjá húsi Kims og framhjá húsi kisunnar Lolitu og vorum þá komin á malarstíginn sem leiðir mann ýmist út Risnesset eða upp á toppinn á fjallinu. Eða hringinn í kringum eyjuna.

Tagl og teygja

Við stöldruðum við kortið af eyjunni og skoðuðum leiðina, nema hvað að það er engin leið sem liggur um eyjuna. Við undurbjuggum okkur undir að spila af fingrum fram hvað hana snerti og lögðum kortið að baki. Við gengum það sem kallast Geitvegen, moldarstígur sem liggur um grisinn og lágvaxinn birkiskóg. Við skáskutum okkur framhjá trjábolum og mosagrónum steinum, beygðum okkur undir trjágreinar og klöngruðumst niður þröngt klettagil.

Blómin og lyngin

"Svolítill Indiana Jones fílingur í bland við Hringadróttingssögu í þessu" hugsuðum við með okkur á þessum tímapunkti. Okkur varð líka hugsað til Lost, augljóslega. Á göngu um eyju, ekkert nema gróður og kjarr og lokst þegar maður kemst út úr kjarrinu blasir bara sjóndeildarhringurinn við. Já, við vorum svolítið að ganga í spor Kate og Jack og Sawyer, arkandi þarna að kvöldlagi.

Baldur og bláminn í vatninu

Við höfðum fjallið okkur á hægri hönd og hafið og sjóndeildarhringinn á vinstri hönd. Framundan sáum við Risnesset og grillhyttuna, og fyrir neðan vissum við að Nøvvika biði okkar. Við stöldruðum aðeins við áður en við lögðum í grýtta brekkuna sem liggur niður að ströndinni og tókum nokkrar myndir af fjöllunum sem báru við sjóndeildarhringinn. Þá er gilið sem stúkar af Nøvvika einnig ansi glæsilegt og myndrænt.

Lokst klöngruðumst við niður brekkuna og yfir allt stórgrýtið. Héldum jafnvel að þetta væri erfiði parturinn sem einhverjir hefðu verið að tala um, og fannst þetta erfiði hlægilegt. En við vissum ekki hvað eyjan var að hugsa í hljóði.

Netadræsur og annað rusl

Í fjörunni í Nøvvika fundum við spýtur, netadræsur og tómar glerflöskur. Baldur sparkaði í spýtur á meðan ég kom myndavélinni fyrir á borðplötu sem skellt hafði verið ofan á rekavið. Stillti svo á sjálfstillingu, hljóp til Baldurs í fjörunni og við fífluðums aðeins framan í linsuna.

Í Nøvvika

Í Nøvvika

Þetta var auðveldasti hluti ferðarinnar og guði sé lof að við vissu ekki hvað beið okkar!
Framhald í næsta þætti.

Engin ummæli: