fimmtudagur, 19. júlí 2012

Rundt øya, 3. del

Verða kalt, er kvöldar að
Halda seint og hægt af stað.
Mjakast eftir mosatónum.
Missa hælinn undan skónum.

Þessar línur úr ljóði Tómasar Guðmundssonar koma upp í hugann þegar lýsa skal síðasta hluta hringferðarinnar.

Þegar við höfðu lokið við að fika, þ.e. snarla þarna á ásnum á Storknean, pökkuðum við niður hitabrúsanum, snöruðum á okkur vettlingum og héldum af stað.

Horft yfir til Alkøya

Við gengum beint í flasið á miðnætursólinni og ferskjubleikum himni. Eins og áður sagði blasti eyjan Træna við okkur úr þessari átt en nú sáum við líka til Alkøya.

Í frumskóginum

Við gátum hins vegar ekki leyft okkur að virða sjóndeildarhringinn of náið fyrir okkur því bara við það að fara yfir grasivaxinn ásinn vorum við skyndilega stödd í brattri, stórgrýttri og mosagróinni hlíð. Þykkur mosinn gaf til kynna að hér væri að finna góða fótfestu en svo bregðast krosstré sem önnur og brenndum við okkur fljótt á mosanum, svona óbeint allavega.

Ruðst í gegnum skóginn

Við vorum fljótlega komin niður á alla fjóra nema í þetta sinn gengum við köngurlóargang: naflinn upp. Eftir að hafa runnið til í mosanum alloft fannst okkur það betri kostur að skælast svona niður hlíðina heldur en að rúlla niður eins og bolti.

Það er óhætt að segja að hér komi sá kafli göngunnar þar sem við komumst næst því að villast. Hér var ekkert frekar en fyrri daginn fyrir neinni merktri leið að fara og nú var strandlínan horfin sjónum og því ekki hægt að styðjast við hana. Við skakklöppuðumst bara áfram niður hlíðina, passasöm með að renna ekki of hratt á mosanum. Ferðin endaði hins vegar skyndilega þegar við stóðum frammi fyrir hengiflugi.

Leiðarvísir

Ok, kannski frekar dramatískt að tala um hengiflug, en við vorum allavega búin að koma okkur í þær aðstæður að leiðin sem við höfðum verið að fikra okkur eftir var ekki lengur greið. Því tók við klöngur yfir stóra steina og fallnar trjágreinar og fyrr en varði vorum við stödd í aldagömlum og fúnum skógi. Þetta minnti helst á eitthvað úr Hringadróttinssögu. Skógarbotninn var svo þéttur að hann var þakinn trjárótum og burknum sem vaxa villt á eyjunni. Göngulag okkar tók á sig mjög svo torkennilega mynd og séð úr fjarlægð var eflaust sem við gengjum á svelli, svo mikið í loftinu vorum við. Hér var bara enga fótfestu að fá.

Silhouette

Svo forn var þessi skógur að sjá að okkur fór að renna í grun að inní hann hefði enginn ratað í áraraðir. Við sannfærðumst endanlega um það þegar við höfðu gengið enn lengra inn í skóginn. Trjábolirnir voru þaktir einhvers konar mosakenndum gróðri sem innsæið sagði mér að ég ætti að handfjatla sem minnst. Baldur var á undan mér að ryðja brautina. Hann kallaði yfir öxlina og orðaði einmitt þessa hugsun hér að ofan: "Það er eins og það hafi enginn komið hingað í aldaraðir." Varla var hann búinn að sleppa síðast orðinu þegar við fengum staðfestingu á þessu. Hann greip í trjábol til að styðja sig við yfir mosagróinn stein þegar tréð hrynur niður fyrir augum okkar, fúið í gegn. Þetta var eins og að horfa á byggingar sprengdar í loft upp nema hvað þetta var óvæntara því hversu oft leysist tré upp við snertingu? Surreal, ég er að segja ykkur það!

Hestvika

Um þetta leyti áttuðum við okkur á því að við vorum algjörlega umvafinn gróðri og sáum ekki lengur til sjávar. Klukkan var að nálgast hálf tvö að nóttu og við vorum týnd. Við höfðum tapað áttum og ég fann að það var ekki langt í panikhláturkast. Mér fannst eins og það væri smádýr skríðandi á mér allri og gat ekki annað en látið undan þörfinni til að klóra mér reglulega og hrista. Það var orðið mjög nauðsynlegt að komast út úr skóginum og á hraðskreiðari braut.

Á leiðinni út í Hestvika

Baldur tók á það ráð að klifra upp á risavaxna steina sem við sáum framundan. Þaðan gat hann betur glöggvað sig á staðsetningu okkar og áttað sig á hvernig við gætum ratað úr frumskóginum. Því þetta var frumskógur í allri sinni merkingu.

Með þessu móti breyttum við stefnu okkar og eftir dágóða stund af klöngri á skógarbotninum römbuðum við á troðinn slóða sem var merkta leiðin til Hestvika sem við höfðum verið á höttunum eftir. Héðan varð leiðin mun greiðari og okkur léttara.

Úr!

Eftir stutt klifur í keðju stóðum við fyrir ofan Hestvika og þegar við vorum komin alla leið niður á ströndina ákváðum við að fara í fótabað í sjónum. Sandurinn var mjúkur og gljúpur og fæturnir sukku djúpt í blautan sandinn. Vatnið var að sjálfsögðu ískalt og frískandi.

Kalt!

Við gegnum aðeins eftir ströndinni og rákum upp óp þegar við gengum fram á nafnið Jacob párað í sandinn. Þeir sem hafa horft á Lost vita hve furðuleg sú upplifun var eftir að hafa gengið í sex tíma um eyjuna, talandi allan tímann um hve vel gangan minnti okkur á þættina.

Fífur

Frá Hestvika gengum við berfætt yfir túnið til að gefa fótunum hvíld frá skónum. Við gengum fram á mýri fulla af fífum og ekki langt undan var lítil hjörð af ám með lömbin sín. Sem fyrr voru þær mjög spakar og leyfðu okkur að koma ansi nálægt sér.

Lagt í lokasprettinn

Fífur

Við heilsuðum upp á hjörðina og leyfðu forvitnum lömbunum að virða okkur fyrir sér. Síðan buðum við góða nótt og héldum heim á leið enda klukkan langt gengin í þrjú og algjörlega kominn háttatími hjá göngugörpunum.

Ein ábúðarfull

Eins og gefur að skilja tókum við ógrynni af myndum á þessari sjö tíma gönguferð. Hér að ofan er brotabrot af þeim en restina má finna á albúminu Rundt øya.

Ganga hringinn í kringum eyjuna - tékk!

Engin ummæli: