sunnudagur, 22. júlí 2012

Sokkar!









Þá er ég loksins búin með sokkana sem ég byrjaði á í febrúar. Bara búið að taka fimm mánuði!

Ég keypti uppskrift að þessum jazzy sokkum í prjónabúð í Gautaborg, auk garnsins og prjóna. Garnið heitir Online og liturinn er regnbogalitur. Ég hófst handa þegar ég var enn í Svíþjóð og vildi nýta mér það að hafa prjónamömmu mér innan handar. Ég æfði mig að gera hæl áður en ég lagði í hælinn á fyrsta sokknum og fannst ég eftir það vera tilbúin til að stinga mér í djúpu laugina.

Ég hef aldrei prjónað áður eitthvað alveg ein, þ.e. engin mamma til að redda mér þegar eitthvað bjátar á. Ég lenti því eins og gefur að skilja í hinum ýmsust hremmingum og á köflum prjónaði ég meira aftur á bak en áfram. Með þessu er ég að vísa í að ég rakti ansi oft upp heilu umferðirnar og jafnoft lagði ég frá mér prjónana og hugsaði með mér að það væri hin mesta fásinna að halda því fram að prjónaskapur væri afslappandi iðja. Það hjálpaði ekki að uppskriftin var á þýsku og þýðingin á sænsku. Ekki að íslensk uppskrift hefði hjálpað mikið!

En þetta hafðist, þökk sé mömmu og Skype. Fyrstu sokkarnir komnir í hús, vúhú. Annar er mun stærri en hinn en að öðru leyti er ég ánægð með útkomuna. Nú er bara að pakka þeim í tösku og taka þá upp þegar við erum komin heim til Íslands.

Engin ummæli: