föstudagur, 28. september 2012

Elsku dótið mitt

Ég er enn að taka upp úr kössum, ótrúlegt en satt þá er það ekki alveg uppáhaldsiðjan mín. Í dag tók ég upp úr kassa með gömlum fötum og sumu þarf bara að henda og annað má gefa. Ég er ein af þeim sem binst einhverjum tilfinningaböndum við föt. Náttbuxur sem mamma gaf mér og eru orðnar gatslitnar á ég erfitt með að setja í Henda bunkann. 'Ég skrifaði MA ritgerðina í þessum buxum!' Svo eru það kvart leggings buxur sem ég keypti í Kaupmannahöfn um árið. Notaði þær líka í jógakennaranáminu og nú er komið gat á annað hnéð af allri notkuninni. Finnst eitthvað sorglegt að henda þeim því ég á svo margar góðar minningar af því á vera í þeim og líða vel.

Svona er maður skrýtinn!

En bækurnar. Þær fá nú ekki að fara langt. Þær ýmist fá að fara upp í hillu (fáar) eða aftur ofan í kassa (meirihlutinn). Þær sem fá að fara upp í hillu eru aðallega ólesnu bækurnar. Það þarf að gefa þeim rými svo að þær sjáist og verði tekið eftir þeim, þá aukast nú líkurnar á að maður taki eina þeirra upp og lesi.

Sumar veit maður samt ekki hvort maður eigi að hafa uppi við eða geyma aðeins lengur ofan í kassa. Ég fletti af rælni inn í bókina Self Healing, Yoga & Destiny eftir Elisabeth Haich og Selvarajan Yesudian og ákvað að láta innihaldið ráða för. Lokaði augunum, fletti bókinni hægt, stoppaði þegar ég fann að ég ætti að stoppa, lagði vísifingur á síðuna og lét hann leika um opnuna, nam svo staðar og las. Þetta er það sem alheimurinn vildi að ég læsi:
'Those who take the first steps of the Yoga pathway into self-knowledge soon discover that something miraculous is hidden inside the human being, a world they never knew before. Previously when they looked inside themselves, they saw only darkness, and that is why they never thought of making further attempts. To practice Yoga, however, means to turn our attention to this inner darkness and to continue looking at it patiently. If we do so, we begin to perceive a dawning within us and a door opening into a strange new world. Whoever has once cast a glance into this new world will never want to stop practising Yoga.' (bls. 27)
Mér fundust skilaboðin tala það til mín og vera svo í takt við þann stað sem ég stend á nú að ég hikaði ekki heldur lagði bókina inná náttborð. Þessa bók skal ég loks lesa.

Síðan eru það bækurnar sem maður las og varð ekki samur á eftir. Hér er Siddhartha hans Hermanns Hesse gott dæmi. Samkvæmt eigin skipulagi verð ég eiginlega að pakka henni niður enda búin að lesa bókina, og þó svo ég sé meira en til í að lesa hana aftur einn daginn, þá ætla ég ekki að gera það á allra næstu mánuðum. Í staðinn þá klappaði ég bókinni aðeins og fletti blaðsíðunum, sogaði í mig letrið.

Ég man ekki hvenær við keyptum bókina eða nákvæmlega hvar, veit þó að hún er keypt í Indlandi. Líklega í Goa í desember 2006. Hún er hins vegar prentuð í Bandaríkjunum sem þýðir að við hljótum að hafa keypt hana notaða því hún kostaði bara 163.45 rúpíur. Einungis bækur prentaðar í Indandi eða notaðar bækur fást fyrir svo lítið fé. Hún er líka svolítið snjáð hjá okkur og síðurnar við það að detta úr kilnum. Innihaldið er hins vegar óháð þessu. Þessi saga er mjög áhrifarík og falleg, róandi eins og lækjaniður. Í kveðjuskyni staðnæmdist ég og las:
'His sleep was deep and dreamless; he had not slept like that for a long time. When he awakened after many hours, it seemed to him as if ten years had passed. He heard the soft rippling of the water; he did not know where he was nor what had brought him there. He looked up and was surprised to see the trees and the sky above him. He remembered where he was and how he came to be there. He felt a desire to remain there for a long time. The past now seemed to him to be covered by a veil, extremely remote, very unimportant. He only knew that his previous life (at the first moment of his return to consciousness his previous life seemed to him like a remote incarnation, like an earlier birth of his present Self) was finished, that it was so full of nausea and wretchedness that he had wanted to destroy it, but that he had come to himself by a river, under a cocoanut tree, with the holy word Om on his lips. Then he had fallen asleep, and on awakening he looked at the world like a new man. Softly he said the word Om to himself, over which he had fallen asleep, and it seemed to him as if his whole sleep had been a long deep pronouncing of Om, thinking of Om, an immersion and penetration into Om, into the nameless, into the Divine.' (bls. 90)
Þessari bók get ég óhikað mælt með við alla, hvort sem maður er að leitast við að lesa klassísku verkin, næra sálina á andlegum texta eða verða fyrir djúpri inspírasjón.

Svo rakst ég á blað með áminningu um að athuga bók Paul Bruntons, A Search in Secret India. Er hér með búin að setja þá bók á framtíðarleslistann.

Að lokum gluggaði ég í bók sem leit mjög svo forn út, In the Cauldron of Disease eftir Are Waerland og rakst þar á þessi orð:

The more we have stood on our own feet
and thought and felt and acted for ourselves,
the more the whole universe has responded to us.
Undirritað Oman
 
Ó, elsku dótið mitt, hvað ég hef saknað þín!

fimmtudagur, 27. september 2012

Miðnæturhringur


Í gær náði ég ekki að fara í göngutúrinn minn. Þóttist vera upptekin við annað og merkilegra en svo kemur alltaf í ljós að það er ekkert merkilegra eða meira áríðandi en að fara út og hreyfa sig.

Ég sá því fram á að fara út að ganga um kvöldið, í myrkrinu, og leyst ekki of vel á að gera það ein. Svo ég stakk upp á því við Baldur þegar hann kom heim upp úr hálf ellefu að við færum í góðan göngutúr. Hann var meira en lítið til í það. Mikið er ég heppin að eiga mann sem er alltaf til í eitthvað svona!

Við gengum framhjá Hlemmi og upp Laugaveginn og fórum niður hjá Nóatúni í Nóatúni og inn Miðtúnið. Þar bjó ég í nokkur ár sem lítið dýr og var sátt og sæl. Þá var rólóvöllur í enda götunnar og risaíþróttavöllur, Ármannsvöllurinn. Nú hefur þessu verið rutt burt og í staðinn komnar blokkir. Það er ekki alveg sami sjarminn yfir þeim eins og róló og stórum velli til að  hlaupa á og leika.

Við gengum inn í Laugardalinn og um Teigana. Nú er laufið víðast hvar búið að skipta um lit og ég fékk augnabliksáhyggjur af því að ég næði ekki að fara út með myndavélina í tæka tíð og mynda haustið. En ég virðist enn hafa smá tíma til stefnu, vona bara að það komi ekki stormur í millitíðinni og hrifsi til sín öll laufin á greinunum.

Ég hafði hugsað mér að ganga inn eftir tjaldstæðinu í Laugardal og í gegnum Grasagarðinn en tjaldstæðið grúfði sig svo í myrkri að við hefðum þurft að hafa ennisluktir eða vasaljós með í för. Svo við hættum við það og fórum í staðinn Laugarásveginn.

Það voru ekki margir á ferli svona seint um kvöld. Við námum staðar fyrir utan Beco ljósmyndavöruverslunina á Langholtsvegi og skoðuðum þrífætur og myndavélatöskur í gegnum glerið. Á veggnum andspænis glugganum var stór klukka sem var fimm í tólf. Umferðin var líka alveg í takt við þennan tíma sólarhrings, þ.e.a.s. engin, og þögnin á götunum eftir því. Í samanburði við að labba meðfram Sæbrautinni eftir hádegi þá var þessi ganga svolítið eins og upplifunin hans Palla af því að vera einn í heiminum.

Frá Háaleitisbrautinni gengum við í gegnum Vogana og þaðan yfir í Gerðin. Þarna taldi ég mig vera að sjá sumar götur í fyrsta sinn, eða kannski að borgin og götur hennar séu óþekkjanlegar svona í næturmyrkrinu. Við tókum allavega eftir því hvað hún er falleg svona í rökkrinu, bílarnir sofandi í sínum stæðum, húsin hljóð og lamparnir lýsandi út í nóttina.

Þegar við vorum komin upp úr Fossvogsdalnum og komin að Fossvoginum helltist yfir mig söknuðum eftir Hraunbrautinni. Við hjóluðum svo oft Fossvogsdalinn á haustin og hluta af mér fannst eins og við værum á heimleið í Kópavoginn.

Á leiðinni inn eftir Fossvoginum sjálfum mættum við manni sem á fornu máli innti eftir því hvort við ættum eldfæri til að lána honum. 'Nei, ekki búum við svo vel.'

Þegar tók að glitta í Valsheimilið fann ég að ég var orðin vel þreytt eftir gönguna, auk þess sem langt var liðið inní nóttina. Þegar við svo staðnæmdumst fyrir utan Snorrabrautina kom líka í ljós að við höfðum gengið rúma 12 kílómetra á tveimur tímum.

Þetta var góður hringur og ég ætla að fara hann aftur fljótlega, en næst kannski að deginum til, vera svolítið flippuð.

mánudagur, 24. september 2012

Allt í kössum

Heiti færslunnar gefur til kynna að við séum enn að kafna í kössum - sem er að vissu leyti rétt - en við erum þó alltaf að bogra yfir þeim og draga upp úr þeim. Og það er ótrúlegasta dót sem kemur upp úr þessum kössum!

Þegar við stóðum í nákvámlega sömu sporum í júlí '08 á Hraunbrautinni, hafandi verið með eitthvað af dótið okkar í kössum í tvö ár og annað í þrjú ár, þá vorum við alltaf að taka fram muni sem við vorum búin að gleyma að við ættum eða hreinlega mundum ekkert eftir að hafa nokkurn tímann átt.

Ég bjóst því við að í þetta sinn væri maður aðeins betur með á nótunum, og að vissu leyti er það svo, en inn á milli eru þó hlutir og dótarí sem ég taldi mig hafa hent eða gefið. Aðallega upplifi ég þó mikla gleði við að taka upp úr kössunum og finnst ógurlega gott að vera umkringd dótinu mínu.

Og hvaða ályktanir má draga af því? Ég fór alla leið til Indlands (aftur) og lærði jóga og hugleiðslu en í staðinn fyrir að læra að aftengjast dótinu mínu varð ég enn háðari því. Ég er ekkert ósátt við það.

Helgina notuðum við síðan til að koma betra skikki á hlutina:
Ruddum öllum kössum út úr svefnherberginu og merktum í huganum við það sem semi tékk;
ruddum kössunum inn í stofu og skiptum þeim í tvo flokka - annar má vera en hinn skal fara upp í geymslu hjá pabba;
gengum frá kössum sem eiga að fara upp í Garðabæ og teipuðum þá fram og til baka;
plötuðum pabba til að koma og sækja þá;
hann plataði okkur í bíó.

Eftir bíó endurröðuðum við síðan sófunum í stofunni og komum þessum níu kössum sem eftir eru snyrtilega fyrir upp við einn vegginn.

Ah, gátum andað léttar því nú hefur stofan aldrei verið fínni. Ég held ég gæti bara alveg vanist því að hafa þessa kassa þarna, hugsanlega er það auðveldara en að taka upp úr þeim. Veit samt ekki alveg hvort það sé félagslega samþykkt.

laugardagur, 22. september 2012

Bókasafnið

Ó, mér þykir svo vænt um bækur.

Í dag fór ég að sækja litlu skáfrænkurnar mínar á skóla og leikskóla. Til að gera eitthvað skemmtilegt og uppbyggilegt saman stakk ég upp á því að við færum á bókasafnið í Kringlunni. Sú yngri var til í það og sagðist alveg geta gengið úr Hlíðunum. Sú eldi, sem les eins og vindurinn, var hins vegar ekki eins spennt. En hún lét sig samt hafa það.

Þær fundu sér strax sæti við borð í krakkahorninu og voru komnar með sitthvora bókina áður en ég vissi af. Svo heyrðist ekki múkk frá þeim, voru alveg uppteknar í öðrum heimi. Ég gat því lætt mér yfir í hilluna með ensku bókunum og dottið ofan í það sem ég elska að gera öðru hverju: bókasörfa. Skoða úrvalið, taka eina og eina bók fram, verða fyrir einhverjum áhrifum og taka bókina frá, ákveða að lesa hana.

Ég er með langan lista af bókum sem ég ætla að lesa en inn á milli verð ég að komast úr þeim viðjum og bara skoða að vild og láta hrífast af bókum sem ég  hef aldrei heyrt um áður. Þannig hef ég líka lesið svo margar góðar bækur og kynnst áhugaverðum höfundum.

Bókaormurinn fann átta titla sem honum leyst vel á. Stelpurnar ráku upp stór augu þegar þær sáu mig rogast með bókastaflann í fanginu.

'Ætlarðu að lesa allar þessa bækur?' spurði sú yngri alveg hlessa. Fór svo yfir að DVD rekkanum og bað um að fá að hafa Kalla Blómkvist og félaga með sér heim.

Sem við og gerðum og hún sat límd yfir þessari leynilöggusögu í þær 82 mínútur sem í boði voru. Sú eldri vildi frekar vera inní herbergi að dansa við Justin Bieber og Nicki Minaj. OMG, ég er ekki að höndla að hún sé farin að hlusta á Bieberinn!

Hér eru svo þessar spennandi bækur sem ég tók, mikið sem ég hlakka til að detta ofan í þær:

The Alchemist's Daughter / Katharine McMahon
In the woods / Tana French
Emotionally weird / Kate Atkinson (frábær höfundur hér á ferðinni)
The good husband of Zebra Drive / Alexander McCall Smith (bráðfyndin sería)
The inheritance of loss / Kiran Desai
The seal wife / Kathryn Harrison
Ape house / Sara Gruen (sami höfundur og skrifaði Water for Elephants)
The outcast / Sadie Jones

Þess ber kannski að geta að þessi stafli bætist við staflann sem var fyrir og leit svona út:

The Tiger's Wife / Téa Obreht
Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry / Rachel Joyce
Leynda kvöldmáltíðin / Javier Sierra
Reading for the Plot / Peter Brooks
Kýr Stalíns / Sofi Oksanen

Það er eins og ég sé að búa mig undir að bókasöfn landsins loki í óákveðinn tíma. Svo er þó ekki, ég ætla að rífa þær í mig eins og vargur. Það kallast að fylla á tankinn.

föstudagur, 21. september 2012

Grótta

Gekk í gær út að Gróttu og var montin með mig, rúmir 14 km á rúmum tveimur tímum.
Skyggnið var svo gott að ég nagaði mig í handabökin yfir að hafa ekki verið með myndavélina á mér.
Endurtók því leikin í dag því veðrið lék sama leik og í gær.
Í þetta sinn hjólaði ég þó.
Gekk út í Gróttu á fjöru, var með myndavélina á lofti hátt í tvo tíma.
Varð reglulega litið yfir á hafflötinn til að sjá stöðu sjávar.
(Var hrædd við að verða innikróuð af flóðinu)
Horfði út yfir miðin á togara og farmskip mætast.
Tók margar sjálfsmyndir, flestar úr fókus.
Fann dauðan máf á bakinu.
Reyndi við hurðina á Gróttuvita, hún var vitaskuld læst.
Horfði til skiptis á Esjuna og Keili, en líka stundum á Akrafjallið.
Sat á stóru grjóti upp við vita, upp við hafið og upplifði að það væri mögnuð upplifun.
Hitti Raquel vinkonu þegar ég var að tygja mig heim.
Við ræddum um hugleiðslu, það fittaði einmitt við stemmninguna.

Þetta var fyrsta sinn sem ég fór út í Gróttu.

Ég tók margar myndir.

Á flugi
 
Grótta og vitinn
 
Untitled
 
Stráin
 
Gróttuviti
 
Untitled
 
Untitled
 
Vitinn
 
Keilir
 
Vitinn
 
Gróðurinn
 
Untitled
 
Skeljar
 
Untitled
 
Untitled
 
Vitinn
 
Vitinn
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled

þriðjudagur, 18. september 2012

Casa nova

Mundar parmesaninn

Nei, svona gerir maður
 
 
Þessa fyrstu daga á nýja heimilinu hefur okkur lukkast að:
- kaupa þvottagrind
- koma hinni fornu Eumeniu þvottavél sem fylgir íbúðinni í gang, og í beinu framhaldi af því:
- nota þvottagrind
- taka upp úr fáránlega fáum kössum
- lifa af í allri þessari óreiðu
- elda ítalska súpu
- fara í Sundhöllina sem ég hef ekki heimsótt í allavega áratug
- fá okkur flöbbur á hverfisbúllunni, þ.e. Devitos
 
Þess utan þá átti ég svona glamúr móment þegar ég tók upp úr einum kassanum leðurstígvélin góðu frá Kaupmannahöfn. Ég tók andköf þegar ég fiskaði þau upp úr kassanum, hafandi gleymt því hve glæsileg þau eru.
 
Að sama skapi var ægilega skemmtilegt að fara í gegnum kassann með sparifötunum, draga fram kjóla og kápur, jakka og belti, óa og æja, strjúka og stara. Ég hef ekki klæðst spariklæðnaði í tvö ár og ég get alveg sagt eins og er að ég hef saknað þess. Maður þolir bara svo og svo mikið af því að nota sömu fötin við hin ýmsu tækifæri, ímyndunaraflinu eru einhverjar takmarkanir settar sem og flíkunum.
 
Það er enn allt í kössum og ég er svona hægt og róleg að komast að því að við getum bara tekið svo og svo mikið upp úr kössum áður en allar hirslur fyllast. "Allar hirslur" vísar til eldhússkápanna þar eð það eru einu  hirslurnar í íbúðinni. Eins og stendur eru sparifötin á herðatrjám og hanga uppá skáp og á gardínustönginni inní herbergi. Okkur vantar tilfinnanlega einhverja slá eða skáp inní herbergi, en þetta er fín millibilslausn.
 
Og svo fór ég í góðan göngutúr í dag, rúntaði með Victor Hugo í eyrunum niður á Granda til mömmu og dró hana síðan með mér í Byko og allaleið til baka upp á Snorrabraut. Í heiðríkju og sólgleði. Að fá mömmu í heimsókn var kærkomið spark í rassinn og varð til þess að hlutum var komið fyrir á sína staði svo hægt væri að athafna sig. Það er allt í drasli og eigum við ekki bara að segja að ég sái nú fram úr þessu? Eða er það eintóm bjartsýni?


sunnudagur, 16. september 2012

Flutningsdagur

Hjálp, við erum að drukkna í kössum!

Við fluttum semsé inn í gær og fengum aðstoð frá pabba og lánsbíl frá Pétri afa Baldurs. Við fórum langt með að tæma geymsluna í gær og ég giska á að helmingurinn af kössunum hafi endað uppi á Snorrabraut, þ.e. einhversstaðar á bilinu 20-30 kassar. Þar að auki var þarna freelance kommóða, bastkarfa og lítil eining á hjólum sem var dregið hingað upp á aðra hæð. Þessir station bílar rúma allt!

Við urðum að hafa hraðar hendur því geymslurýminu lokar klukkan þrjú á laugardögum. Þá kom góður undirbúningur að góðum notum, og fór þetta nokkurn veginn svona fram:

Pabbi: Kassi 31?
Ég (rýni í útprentaðan listann): Upp á Snorrabraut!
Baldur: En kassi 12?
Ég (fletti á næstu síðu og rýni): Áfram í geymslu.

(ad infinitum)

Einhver myndi kannski benda á að þarna hafi ég fengið ansi þægilegt hlutverk sem listarýnir og það er líka alveg rétt, ég fékk eins og maður segir the long end of the stick.

Við náðum þó að því sem næst tæma geymsluna og það litla sem lafði var klárað í dag. Síðan lokuðum við og læstum geymslunni og skiluðum lyklunum. Og hún sem er búin að passa dótið okkar í tvö ár, vel gert kæra geymsla.

Nú er um að gera að ráðast á þessa kassa og sjá hvort maður kannist eitthvað við dótið sem kemur upp úr þeim!

Rogast með úr geymslunni

Hálfnað verk

Samvinna

Bókhaldið

Untitled

Afferming

Untitled

Snorrabrautin

Untitled
 
Geymslan

laugardagur, 15. september 2012

Reykir

Ég fór í dag í smá bæjarferð með pabba og Huldu. Það er alveg ferlega gaman að fara í smá ferð á virkum degi, þá tístir alveg í mér af kæti.

Við keyrðum austur fyrir fjall með viðkomu í Litlu kaffistofunni. Hugmyndin var að fara Þrengslin og tína bláber einhversstaðar á leiðinni, einhversstaðar utan við Þorlákshöfn. Pabbi hafði farið með vini sínum Óla um árið og þá höfðu þeir rambað á algjört gnóttarlyng, sem ég held að hann hafi viljað finna aftur. Einu minningar sem ég á að því að fara í berjamó utan við Þorlákshöfn er að einn berjadallur týndist og mér fannst það stórmerkilegt (hvernig getur eitthvað horfið?)

Við keyrðum og keyrðum og reyndum að finna besta staðinn, en játuðum okkur svo sigruð og fórum út þar sem líklegast væri eitthvað um ber. Það rigndi mjúklega á okkur en nóg þó til að gera okkur erfitt um vik með að tína bláberin. Krækiberin voru aftur á móti móttækilegri fyrir því að vera plokkuð af lynginu og dempt ofan í hvítan plastdall. Bláberin sprungu bara í höndunum á manni.

Úr berjamó fórum við svo í heimsókn til foreldra Huldu. Þau eiga huggulegan bústað á Reykjum og þar er líka æðislegur heitur pottur sem þau steyptu sjálf fyrir rúmum þrjátíu árum. Þarna á Reykjum er nefnilega hitaveita og alveg nóg af heitu vatni. Dásamlegt alveg að fara í heitan pott í rigningu, það er eiginlega það skynsamlegast sem maður getur gert þegar það rignir! Svo má nú segja að útsýnið yfir rjúkandi hveri hafi alveg toppað þetta fyrir mig því þessir gufustrókar segja svo mikla sögu um landið okkar og möguleikana hér.

Eftir bað í pottinum fengum við nýbakaðar vöfflur með heimagerðri bláberjasultu. Svo vorum við leyst út með nýbökuðu brauði og sitthvorri krukkunni af bláberjasultu. Ekki amalegt að byrja búskap með nýtt brauð og sultu í farteskinu. Á morgun er nefnilega flutningsdagur og í dag er sambúðarafmæli okkar Baldurs.

miðvikudagur, 12. september 2012

Veðraskipti

Við höfum undanfarna viku verið að sætta okkur við þá staðreynd að sumarfríinu okkar er lokið. Úff, því fylgir mikil söknuður. Alveg elska sumarfrí. Það er hins vegar svolítið erfitt að fatta að maður sé ekki lengur í sumarfríi það þegar maður þarf ekki að vakna til vinnu á hverjum degi. Er maður þá enn í sumarfríi eða þarf maður að kalla það eitthvað annað?

Síðustu daga höfum við reyndar verið að leggja grunninn að breyttum aðstæðum. Að sjálfsögðu liggur maður yfir atvinnuauglýsingum og sækir um það sem manni hugnast vel og síðan höfum við líka verið að skoða leiguíbúðir.

Í gær dró svo til tíðinda. Baldur varð sér úti um vinnu og um kvöldið fórum við svo og skoðuðum íbúð á Snorrabrautinni. Skondið hvernig þetta gerist á sama deginum. Íbúðin leit ágætlega út, hennar helsti kostur í okkar augum er staðsetningin sem gerir það að verkum að við getum látið gamlan draum rætast: að vera bíllaus á Íslandi. Sem við höfum aldrei áður reynt. Sem er svolítið skrýtið því við erum alltaf að dásama bíllausa tímann okkar í Kaupmannahöfn. Sem minnir mig á hvað Kaupmannahöfn er frábært og fær mig til að sakna hennar, en flækjum nú ekki málin óþarflega.

Við fórum í sund í Vesturbæjarlauginni eftir að hafa skoðað íbúðina. Þurftum svolítið að melta ákvörðunina um leiguíbúðina og heitir pottar eru alveg kjörnir til þess. Það situr svolítið í mér að þegar við höfðum lagt bílnum fyrir framan Snorrabrautina og stigum út varð mér litið á stafrænan skjá stöðumælisins og klukkan blikkaði mig og sagði 20:12. Ég, sem reyni að lesa í stokka og steina, vildi eiginlega meina að stöðumælirinn væri að segja mér að ég ætti að búa hér út árið.

Ætli við séum ekki bara að fara að flytja á Snorrabrautina? Leyfa þessum straumi að tosa sig með sér?

laugardagur, 8. september 2012

Fossvogurinn

Í gær...

... hjóluðum við í heiðríkju niður í bæ
... heimsóttum við Kalla afa Baldurs á spítalann
... hjólaði ég Fossvoginn heim
... lét ég heillast af gróðurfari eina ferðina enn
... (elskaði ég Fossvoginn og geri enn)
... fór ég ekki í sjósund í Nauthólsvík þó mig langaði mjög mikið til þess
... varð ég pirruð á því hve vetraropnun Nauthólsvíkur hefst snemma!
... kom ég við hjá Finnboga fisksala og keypti hlýra í kóríander og lime
... bætti ég brokkólí út í hlýrann með kóríander og lime
... kláruðum við loksins Gamlingjann sem skreið út um gluggann - hún er æði!








miðvikudagur, 5. september 2012

Spaghetti al tonno e limone

 
 



Þessa uppskrift rakst ég á á fésbókinni á dögunum, hjá fyrrum leigusala okkar henni Ingibjörgu, og bara varð að prófa. Þetta var líka kjörið tækifæri til að draga fram og nota í fyrsta sinn hvítlaukstvistuna sem við keyptum um borð í vélinni á leiðinni heim. Þessi tvista tekur líka við engifer, ólívum, chilli, papríku, hnetum og ýmsu öðru sniðugu sem maður gæti þurft að mylja mélinu smærra. Til dæmis steinselju eins og kom á daginn. Við semsé prófuðum græjuna og urðum hrifin, enda er græjan margverðlaunuðu og kemur frá Kaliforníu maður!

Svo var rétturinn sjálfur mjög gómsætur. Sumum gæti þótt hann þurr en það truflaði mig ekki neitt. En höfum á hreinu að þetta er ekki svona hversdagsmatur fyrir hinn almenna borgara, nema hinn almenni borgari stundi kraftmikil hlaup eða rosalyftingar. Hjá mér er þetta allavega sparimatur.

Og hér er svo uppskriftin.

Spagettí með túnfiski og sítrónu
500 g spagettí
2 msk ólífuolía
1 hvítlauksrif
4 msk söxuð steinselja
1 dós túnfiskur, 200 g
safi úr einni sítrónu
60 g nýrifinn parmesan ostur
30 g smjör
salt, svartur pipar

Látið renna af túnfiskinum og takið hann sundur í flögur.
Hitið ólífuolíuna og setjið smátt saxaðan hvítaukinn og steinseljuna útí. Hafið vægan hita og hrærið stöðugt í og bætið fiskinum smám saman við. Hitinn á að vera svo lítill að ekkert af þessu breyti um lit.
Sjóðið pastað og passið að ofsjóða það ekki. Látið renna af því og setjið í heitt fat.
Setjið sósuna út í og blandið vel.
Bætið nú við sítrónusafanum, osti og smjöri í litlum bitum og saltið og piprið eftir smekk. Blandið enn vel og berið fram strax.
Bragðsterkara tilbrigði af þessum rétti fæst ef osti og smjöri er sleppt en 3 söxuð ansjósuflök og 1/2 lítill piparbelgur er steikt með hvítlauknum og steinseljunni í upphafi.

Örsagan sem rétturinn blés mér í brjóst:

Hlátrasköllin frá fótboltavellinum bárust inn um hálfopinn gluggann. Út um gluggann barst aftur á móti gufa af sjóðandi vatni og angann af nýlöguðum mat. Haustvindarnir þutu hjá í svörtum strokum en sneru við þegar þeir urðu matarilmsins varir. Röktu slóðina til baka og lúrðu utan við gluggann og ýlfruðu. Eitt laufblað lá klesst upp við rúðuna og fékk engan grið. Auga vindsins. Það sá: slægðan sítrónuhelming liggja bjargarlausan á bakinu, kramda og barða hvílauksgeira og rifna og tætta steinseljustilka. Sláturhús. Þegar auga vindsins leit túnfisk í steikingu á pönnu hljóp ákafi í ýlfrið og vindurinn tók að glefsa í glugga.
Þú sem varst inní eldhúsi varst hins vegar alveg ómeðvituð um lífið fyrir utan. Hér og nú takmarkaðist við parmesaninn sem beittar tennur rifjárnsins tættu niður. Með flýti í hreyfingum mokaðirðu túnfiski útí spagettípottinn og sáldraðir osti yfir. Allt í einu spratt eldhúsglugginn upp á gátt og vindhviða smeygði sér inn fyrir. Þú teygðir þig í gluggaarminn og hallaðir honum aftur með hvelli. Síðan náðirðu þér í disk úr skápnum fyrir ofan vaskinn, raðaðir spagettístráunum ofan á hann, braust þér bita af hvítlauksbrauði og tókst stefnuna að stofunni. Inni í stofu hafðir þú kveikt á kertum og nú vörpuðu logar þeirra mjúkum skuggum allt í kringum sig. Þú lagðir herlegheitin á borðið og rifjaðir upp orð og orð úr þekktu ljóði: leit auga þitt nokkuð fegra? Rjúkandi diskur af Ítalíu. Inní ísskáp beið panna cottan og dillaði stýrinu, í kvöld fengi hún að vera eftirrétturinn.
Þú varst við það að stinga fyrsta upprúllaða bitanum uppí þig þegar þú fannst skyndilega kaldan gust leika um herbergið. Gardínurnar tóku að bærast og eitt kertanna slokknaði. Frammi af gangi gastu ekki betur heyrt en að bærist spangól.
Þessir Ítalir, hvað eru þeir að gera okkur!

mánudagur, 3. september 2012

Leggjabrjótur

Við gengum Leggjabrjót í gær, við Baldur og pabbi. Fórum með hópi sem kallar sig Skemmtigöngur og með slíkum hópi getur varla verið leiðinlegt að labba.

Leggjabrjótur er gömul þjóðleið sem notast hefur verið við frá landnámi og liggur á milli Þingvalla og Hvalfjarðar. Sérstaklega var þessi leið notuð til að ferðast á Alþingi þegar það var á Þingvöllum.

Leggjabrjótur hljómar svolítið hroðalega ekki satt? En ég get alveg staðfest það núna eftir að hafa sannreynt leiðina að hún er enginn leggjabrjótur. Nafngiftin vísar í stuttan kafla á leiðinni sem er vissulega ansi stórgrýttur, en ekkert til að hafa áhyggjur af, þvert á móti var verulega gaman að ganga um mosabreitt grjótið.

Hins vegar ef maður fer ríðandi á hesti gæti útkoman orðið önnur en maður óskar sér því mér skilst að þessi hluti leiðarinnar sé svo kallaður vegna fótbrota hjá reiðhestum. Aumingjans knáu fákarnir misstigu sig hugsanlega í mosagrónu stórgrýtinu.

Við gengum upp úr Svartagili Þingvallamegin og svo til rakleitt áfram. Sáum á einum tímapunkti til tveggja Búrfella og upp úr því spruttu upp vangaveltur um heitið Búrfell. Ef einhver glöggur lesandi kann skil á þessari nafngift má sá hinn sami gjarnan deila því. Við gengum framhjá Botnssúlum, Vestri og Syðri Súlu sérstaklega, og yfir grösuga dali með skærgrænum breiðum sem hafa endurnýjað liti sína eftir rigningar undanfarinna daga.

Það var áð nokkrum sinnum á leiðinni, til að nesta sig, kjafta, litast um en fyrst og fremst til að tína ber. Maður lifandi hve lyngið iðaði af berjum! Sumir göngugarpanna höfðu verði svo forsjálir að útbúa sig döllum sem hægt var að tína í, við hin urðum að læta nægja að tína beint upp í munn. Þegar fyrsta jæja var komið fór fólk að tína á sig sokka og spjarir og þegar annað jæja kom voru allir ferðabúnir að nýju og þá var förinni haldið áfram. Það náðist aldrei að stynja upp þriðja jæjanum, þetta er duglegt fólk sjáið til.

Ekki nóg með að dalirnir væru iðagrænir og lyngin iðablá, þá voru fjöllin grænvaxin upp eftir öllu. Einhversstaðar í þessum fjallasal í einni nestispásunni snerist umræðan um íslenska karlmenn sem höfðu mætt í Laugavegsgöngu með tvær troðfullar ferðatöskur. Einhver vildi meina að hér væru á ferðinni svokallaðar blúndur en Baldur vildi meina að Stuðmenn hefðu sungið um árið að íslenskir karlmenn væru sko alls engar blúndur. Var textinn ekki einhvern veginn svona?

Þegar við höfðum gengið sjálfan Leggjabrjót, þennan nokkur hundruð metra kafla, fór að glitta í Sandvatn og handan þess eru Djúpadalsborgir og af brúnum þeirra horfir maður niður í hrikaleg gljúfur, í þeirri merkingu að þau eru hrikalega tilkomumikil og ægifögur.

Því næst tók við opið land og vítt til allra átta og fallegt eftir því. Við sáum í botninn á Brynjudal og tókum á okkur krók til að kíkja í Þórisgil og gefa rækilega eftir berjatínsluþörfinni.

Veðrið lék svoleiðis við okkur alla leiðinna að maður gerði ekki annað en að rogast með jakka og peysur bundnar utan um sig. Svo hjálpaði ekki til að ég var alltaf langöftust, á grúfu í mosanum að mynda laufblað eða strá, og varð því með reglulegu millibili að taka á rás í gönguskónum til að heltast ekki alveg úr lestinni. Hlaup í gönguskóm og mosa hjálpa ekki til við kælingu líkamans, þvert á móti eins og gefur kannski vel að skilja.

Í lok dags höfðum við gengið 16,93 km samkvæmt Endomondo sem Baldur setti í gang við upphaf göngunnar. Rútuferðin til baka var síðan ekkert síðri en gangan sjálf því Hvalfjörðurinn var spegilsléttur og túnin svo skörpum litum dregin. Ég mæli alveg með þessari göngu, hún er bæði létt og skemmtileg og svo er náttúran þarna alveg í sparifötunum, með perlulokka og allt.

Hér að neðan eru nokkrar myndir af leiðinni en svo er fleiri myndir að finna í albúminu Leggjabrjótur á flickr síðunni okkar.

Untitled
Af stað aftur
  
Nesti
Bláminn í vatninu
Bent í tvær áttir
Arkað
Pósað
Fífurnar fallegu
Glæsilegt landið
Leggjabrjótur
Untitled
Þrenningin
Hengiflug
Vestri og Syðri Súla
Berjalyng
Brynjudalur
Parið í mosanum
Brúin
Untitled
Spegilsléttur Hvalfjörður