mánudagur, 6. maí 2013

Bananabrauð

Hér kemur gömul og góð uppskrift sem hefur fylgt mér síðan ég fór sem jeune fille au-pair til Bordeaux og skrifaði niður helstu uppskriftir í bók til að taka með mér, m.a. þessa:
 
Bananabrauð
 
Bara orðið sjálft er bragðgott. Hvernig er hægt að klikka á brauði sem búið er til úr banönum? (svo fallbeygist banani svo fallega, svona í takt við hvernig hann beygist og sveigist sjálfur fallega: banönum, þetta er æði!)
 
Og bananabrauð geta þeir borðað sem allra jafna hafa þá sérvisku að borða ekki banana. Ha, Andri?
 
Sumir borða bananabrauð eins og hverja aðra formköku: eins og hún kemur af skepnunni. Aðrir, eins og ég, sem fíla salt og sætt saman, smyrja hverja sneið með þykku lagi af smjöri og leggja ostsneið ofan á. OMG, þetta er svo gott!
 
Þessi uppskrift kemur frá mömmu sem fékk hana frá matráðskonu einni í Breiðholtinu. Svona uppskrift sem gengur frá kynslóð til kynslóðar, frá einni góðri konu til annarrar, getur ekki annað er verið fyrirtak. Kvennaleyndarmál? Allavega núna opinbert leyndarmál sem allir fá að njóta - það er að mínu viti besta leiðin til að geyma leyndarmál.

Það er kjörið að henda í bananabrauð þegar maður á banana sem eru komnir á síðasta snúning. Þroskaðir bananar eru bestir í þessa uppskrift því þeir gefa brauðinu svo góða sætu.

HVAÐ
3-4 bananar (meðalstórir, ca. 180 gr hver)
1-2 tsk agave eða hunang
1 egg
1 tsk matarsódi
1/3 tsk salt
2 bollar hveiti

HVERNIG
Stillið ofninn á 185°C.

Stappið bananana. Setjið allt hráefnið saman í hrærivél og blandið saman á stuttum tíma, alls ekki hræra of lengi. Passið ykkur á að setja frekar minna hveiti en meira til að byrja með, ef deigið er mjög blautt getiði bætt meira hveiti útí. Ef deigið fer mjög blautt inn í ofninn kemur það hálfhrátt út úr honum. Finnið því hinn eftirsótta, gyllta meðalveg!

Hellið deiginu í smurt bökunarform (ílangt) og inn í miðjan ofn í 1 klst. Potið með hnífsoddi í brauðið að þeim tíma liðnum og ef oddurinn kemur hreinn út er brauðið tilbúið.

Leyfið brauðinu að kólna í 5-10 mín áður en þið takið það úr forminu. Mér finnst best að borða brauðið volgt svo smjörið nái ábyggilega að bráðna. Soldill smjörpervert!

Verði ykkur að góðu!

 
Bananabrauð
 
Untitled
 
Untitled
 
Untitled
 
Kósýstund

Engin ummæli: