fimmtudagur, 4. júlí 2013

Spínatlasanjarúllur

Spínatlasanjarúllur

Hér kemur algjör laugardagsuppskrift. Dúndurbomba! Bæði er þessi réttur mjög ríkulegur í bragði og óspar á ostanotkun, og hann krefst svolítils dúllerís sem maður stendur kannski ekki í á virkum dögum. En góður er hann! Jömm, jömm, jömm.

Þessi uppskrift kemur af síðunni Budget Bytes.
 
HVAÐ
10-15 lasanjaplötur (10 plötur er það sem við notum, en gott er að sjóða nokkrar til vara ef einhverjar rifna í ferlinu)
425 g ricotta eða kotasæla
1 bolli rifinn mozzarella ostur
1/4 bolli rifinn parmesan ostur
1 stórt egg
280 g frosið spínat
2 1/2 bolli pastasósa
Salt og pipar
 
HVERNIG
Náið upp suðu í stórum potti með miklu vatni og smá salti. Setjið lasanjaplöturnar út í þegar vatnið er farið að bubbla. NB: mikilvægt að setja nóg af olíu út í vatnið til að koma í veg fyrir að plöturnar límist saman í suðu. Sjóðið plöturnar þangað til þær eru al dente, þ.e. mjúkar en ekki linar (10-15 mín). Leggið plöturnar í sigti þegar þær eru soðnar og leyfið vatninu að renna alveg frá. Ekki leyfa þeim að límast saman á þessu stigi, við komum til með að vinna með hverja plötu fyrir sig.

Á meðan plöturnar sjóða er tilvalið að útbúa fyllinguna. Fyrst þarf að þýða spínatið og síðan að kreista allan umframvökva úr spínatinu eins vel og hægt er. Blandið í skál spínatinu, ricotta ostinum, mozzarellunni, parmesan, osti, pipar og smá af salti. Hrærið vel saman.

Hitið ofnin í 200°C. Smyrjið eldfast mót með hitaþolinni olíu.

Takið fram skurðarbretti eða disk, eitthvað sem þið getið notað til að leggja nokkra lasanjaplötu til í einu. Smyrjið fyllingu á hverja lasanjaplötu fyrir sig og dreifið vel úr svo  hún nái vel út í jaðrana. Ekki smyrja of þykku lagi ofan á hverja og eina því við komum til með að rúlla plötunum upp. Áætlið heldur hvað þið þurfið mikið á hverja plötu. Hjá mér dugði fyllingin akkúrat á 10 plötur en það er vert að viðurkennar ég nota yfirleitt meira af sósum/fyllingum en ráð er gert fyrir í uppskriftum hjá öðrum. Hjá ykkur gæti þessi sama fylling hæglega dugað á 15 plötur... og þó... eru Íslendingar ekki soldið sonna? Nota mikið af sósunni? Ég held það.
 
Nú kemur skemmtilegasti parturinn! Rúllið upp hverri plötu fyrir sig og leggið í eldfasta mótið. Smyrjið pastasósu yfir rúllurnar og tryggið að allt yfirborðið sé þakið sósu. Plöturnar eiga eftir að eldast áfram undir sósunni og ef það er einhver partur sem stendur út getur sá partur orðið harður og óætur eftir dvölina í ofninum.
 
Valkvætt: Hér má dreifa smá af rifnum mozzarella eða parmesan osti yfir. Ég gerði það og fannst jafnvel að það væri aðeins of mikið af hinu góða. Það er þegar alveg nóg af osti í rúllunum.

Leggið álpappír yfir eldfasta mótið. Ég stakk tannstönglum í hvert horn og lagði pappírinn yfir til að þriggja að pappírinn legðist ekki ofan í ostinn. Inní ofn í 30 mín.

Mjög gott að bera fram með salati og hvítlauksbrauði. Borða á sig gat, leggjast svo á gólfið, afvelt, og neita að sinna uppvaskinu. Gleyma öllu um laugardagskósýkvöld og sofna á eldhúsgólfinu af kolvetnavímu. Gott plan!

Spínatlasanjarúllur
 
Untitled
 
Spínatlasanjarúllur

Engin ummæli: