föstudagur, 25. október 2013

Matarmikil grænmetissúpa

Grænmetissúpa

Í hillunni þar sem við geymum matreiðslubækurnar okkar er að finna áhugaverða bók sem Baldur kom með í búið frá foreldrum sínum. Hún heitir Diet for a Small Planet: High Protein Meatless Cooking og er eftir Frances Moore Lappé. Þessi bók var gefin út '71 og er fræðirit um hvernig hægt er að setja saman prótínríkar grænmetismáltíðir.

Ég fór að blaða í þessari bók fyrir nokkru og skoða uppskriftirnar sem henni fylgja. Þá rakst ég á súpu sem Frances kallar einfaldlega Hearty Vegetable Soup. Það var einmitt það sem mig langaði í, matarmikla og kraftmikla súpu fyrir kólnandi haustdaga.

Eftir að hafa gert okkur ferð í heilsubúðina til að verða okkur úti um mísó gat ég brett upp ermar og eldað þessa súpu. Jömm, hún er alveg yndisleg. Hnausþykk, braðgsterk, næringarrík. Bulgur og hýðisgrjón fara í hana og því minnir hún svolítið á íslenska kjötsúpu, allavega eins og Rut amma mín gerið hana.

En þetta er engin kjötsúpa, heldur útpæld súpa þar sem baunir og grjón vinna saman að því að færa líkamanum heilt prótín og næringargerið færir okkur B vítamín. En mestu skiptir að hún er frábærlega bragðgóð og áferðarfalleg.

HVAÐ
Ólívuolía
2 laukar, saxaður
2 bollar af niðursneiddu grænmeti (t.d. gulrætur, sveppir, sellerí)
1 dós tómatar
klípa af cayenne pipar
2 msk næringarger
1/2 tsk af þessum kryddum: basilíka, estragon, óreganó, sellerí fræ
1/4 tsk af þessum kryddum: timjan, rósmarín, meiran, salvía
2 msk sojasósa
1/2 bolli hýðisgrjón, ósoðin
1/2 bolli bulgur, ósoðið
1 bolli soðnar sojabaunir
6-8 bollar grænmetissoð
1-2 msk mísó

HVERNIG
1. Leggið sojabaunir (ca 1/3 bolli)  í bleyti yfir nótt.* Sjóðið þær með lárviðarlaufi í 2-3 tíma eða þar til þær eru mjúkar í gegn. Það getur verið gott að hæra varlega í þeim af og til. Einnig er ráð að veiða upp hýðið utan af baununum sem flýtur upp á yfirborðið. Þá gæti vel þurft að bæta vatni út í pottinn þar sem suðutíminn er svo langur.
2. Steikið saman lauk og niðurskorið grænmetið í ólívuolíunni í stórum potti í 5-10 mín.
3. Bætið útí tómatnum, cayenne piparnum, næringargerinu, öllu kryddinu og sojasósunni. Hrærið vel.
4. Bætið út í hrísgrjónum og bulgur, sojabaununum og grænmetissoðinu.
5. Náið upp suðu.
6. Takið einn bolla af súpu til hliðar og blandið 1-2 msk af mísó útí. Hrærið vel þar til mísóið er uppleyst. Skemmtilegt er að mauka þennan eina bolla af súpu með töfrasprota.
7. Hellið mísóblöndunni aftur út í súpuna.
8. Leyfið súpunni að malla í 1-2 tíma eða þangað til hrísgrjónin eru soðin. Ef þarf má alltaf bæta meira vatni út í súpuna.

Með þessari súpu er ansi gott að fá sér heilkorna brauð og góðan ost.

* Ég sýð reyndar aldrei svona smotterí í einu heldur nota ég tækifærið og sýð minnst hálft kíló af baunum í einu, leyfi þeim að kólna, deili þeim síðan í box eða nestispoka, skrifa innihald og dagsetningu á og set í frystinn.

Engin ummæli: