föstudagur, 17. janúar 2014

Ofnbakaður lax & rjómapestó

Lax & rjómapestó

Þennan rétt bjó Baldur til handa okkur um daginn. Við áttum flotta laxabita sem við vorum að renna út á tíma með. Baldur fann uppskrift sem honum leist vel á og áður en ég vissi var kominn þessi fíni lax á diskinn minn.

Nú er ég lítið fyrir lax svona allra jafna, en það hefur komið fyrir að ég hafi fengið lax sem var bara svo vel matreiddur að ég borðaði með bestu lyst. Þessi réttur fellur algjörlega undir þann flokkinn.

Þessi uppskrift kemur af síðunni Ljúfmeti og lekkerheit.

HVAÐ
0,5 kg lax
1 dl rjómi
2,5 dl sýrður rjómi
1 teningur fiskikraftur
3-4 msk rautt pestó
pipar og salt

HVERNIG
1. Hitið ofninn í 180°C.
2. Skerið laxinn í bita og leggið í eldfast mót.
3.  Setjið rjóma, sýrðan rjóma, fiskikraft og rautt pestó í pott og hitið að suðu. Látið sjóða saman í nokkrar mínútur og smakkið til með salti og pipar.
4. Hellið sósunni yfir laxinn og setjið í ofninn í 25 mínútur.

Við bárum réttinn fram með grjónum og fersku grænmeti. Sérdeilis einfalt að græja þennan rétt og einkar ljúft að borða hann. Rjóminn og pestóið gera hann svolítið sunnudags og það er nú aldrei leiðinlegt.

Engin ummæli: