INDLAND 2010-2011

Haustið 2010 héldum við skötuhjú aftur til Indlands. Ástæðurnar fyrir því voru ýmsar; það sem rak okkur áfram var aðallega aukinn áhugi okkar á jóga og þar sem okkur bauðst að læra meira um jóga og fara í jógakennaranám í Indlandi stukkum við til og gripum gæsina. Þá voru vinir okkar einnig að gifta sig í byrjun október, og það passaði svona líka akkúrat inn í plönin. Svo úr varð: Önnur ferð til Indlands!

 Að þessu sinni ferðuðumst við minna um landið en við gerðum í fyrstu ferð okkar til Indlands, heldur vorum við frekar kjurr á sömu stöðum til að nema af færustu jógakennurum heims. Þessi seinni Indlandsferð var af allt öðrum toga en sú fyrri og snerist meira um jóga, hugleiðslu, að fara inn á við, tengjast aftur kjarnanum og finna hvað mann langar virkilega að gera við lífið sitt. Þá var minna bloggað enda tilgangurinn frekar að vera en gera.

Við byrjuðum á því að ferðast töluvert fyrstu fimm vikurnar: mættum í tveggja daga indverskt brúðkaup, sinntum hjálparstarfi á vegum stofnunar Móðir Teresu, tókum metróið í Kolkatta, skoðuðum teplantekrur í Darjeeling, fórum í þriggja daga hike um Himalayafjöllin, heimsóttum bodhi tréð sem Búdda sat undir þegar hann uppljómaðist, þvældumst um þvengmjó öngstræti Varanasi og kíktum við í Khajuraho á allar erótísku stytturnar.

Tókum svo pásu frá ferðalögum og stunduðum jóga hjá Louise Ellis uppí Rishikesh og eignuðumst þar góða vini. Fórum þaðan til Auroville og stunduðum jóga hjá Monicu Marinoni. Heimsóttum Puttaparti um jólin og íslensku fjölskylduna sem þangað var komin í heimsókn. Fórum svo til Anjuna í Goa og vorum þar í eina fjóra mánuði í yndislegri stúdíóíbúð hjá henni Celiu. Tókum 9 vikna intense jógakennaranám og eignuðumst ennþá fleiri vini. Fórum síðan upp til McLeod Ganj og dvöldum þar í átta vikur í algjöru yoga holiday, þ.e. fríi frá jóga!

Kláruðum svo ferðina með smá ferðalagarispu, kíktum til Manali, tókum svo þrjá daga í það að komast yfir Himalayafjöllin yfir til Leh í Ladakh. Fórum þar yfir næsthæsta fjallveg heims og gistum í tjöldum hirðingja á hásléttum Ladakh. Flugum síðan frá Leh til Delhi, hittum vinafólk okkar sem var núna búið að vera harðgift í tíu mánuði og kvöddum svo Indland.

Hér að neðan eru svo linkar á allar færslurnar sem við skrifuðum á þessari ferð, sem og linkar á myndir úr ferðinni og video sem sýnir m.a. frá jógakennaranáminu og ferð okkar til Ladakh.

Komin til Kolkata
Í litlu hofi við hafið
Fréttir úr stórborginni
Ta-ta Darjeeling!
Í bænum hans Búdda
Myndir úr indversku brúðkaupi
Lífsreynsla fyrir allan peninginn
Kama Sutra í Kajuraho
While My Guitar Gently Weeps
Þögnin rofin 
Rishkesh í máli og myndum 

Myndir úr ferðinni: Hér!
Myndband sem sýnir seinni helming ferðarinnar: Hér!